Hoppa yfir valmynd
13. febrúar 2006 Heilbrigðisráðuneytið

Öldrunarþjónusta í Hafnarfirði

Góðir Hafnfirðingar.

Nefnd um uppbyggingu heildrænnar öldrunarþjónustu í Hafnarfirði hefur skilað tillögum sínum.

Nefndina skipaði ég 31. október síðastliðinn og ætlaði henni að vinna hratt. Það hefur hún svo sannarlega gert og skilað góðu verki. Í tillögum hennar endurspeglast heildstæð framtíðarsýn í öldrunarþjónustu enda snúa þær jafnt að bæjarfélaginu og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Ég tek heilshugar undir tillögur nefndarinnar sem ég tel einkennast af framsýni og fyrirhyggju.

Ég ætla formanni nefndarinnar að gera grein fyrir tillögunum hér á eftir en nefni þó strax að þær eru á fimm sviðum. Ýmist eru þetta tillögur sem unnt er að hrinda hratt í framkvæmd eða þær þurfa lengri meðgöngu, undirbúning og aðdraganda.

Í fyrsta lagi eru aðgerðir vegna fækkunar rýma á Sólvangi sem þegar eru komnar vel á veg. Í öðru lagi uppbygging þjónustu til að styðja sjálfstæða búsetu aldraðra. Í þriðja lagi tillögur um sérhæfða sjúkrahús- og stofnanaþjónustu fyrir aldraða. Í fjórða lagi eru tillögur um uppbyggingu Miðstöðvar öldrunarþjónustu í Hafnarfirði - og ég vil nefna að þar er horft er til þess að húsnæði Sólvangs sem ég veit að Hafnfirðingar bera sterkar taugar til, geti öðlast nýtt og verðugt hlutverk. Í fimmta lagi eru tillögur um uppbyggingu nýs hjúkrunarheimilis í Hafnarfirði þar sem byggt verði á nýrri hugmyndafræði sem miðar að því að efla og styrkja sjálfstæði og sjálfræði aldraðra þótt orðnir séu sjúkir og mikillar hjúkrunar og umönnunar þurfi.

Tillögurnar eru afrakstur samstarfs Hafnarfjarðarbæjar og ráðuneytisins. Þær sýna glöggt hvað samstarf í þessum málaflokki er nauðsynlegt og gefa fyrirheit um hverju er unnt að áorka með góðu samstarfi. Fyrir það vil ég þakka Hafnfirðingum sérstaklega en þeir hafa sýnt svo ekki verður um villst hvað áhugi þeirra á því að gera vel í þessum málaflokki er mikill.

Ég vil líka þakka nefndinni fyrir framúrskarandi gott starf, skjót og markviss vinnubrögð og þá góðu yfirsýn yfir málaflokkinn sem fram kemur í skýrslunni. Þessi yfirsýn grundvallast á þeim vinnubrögðum nefndarinnar sem ég tel til fyrirmyndar, þ.e. að kalla á sinn fund fjölda fólks sem vinnur að öldrunarmálum í Hafnarfirði og ræða við aldraða sjálfa. Þá skipta miklu máli kannanir sem nefndin réðist í og einnig kannanir sem Hafnarfjarðarbær lét gera, til að greina stöðu málaflokksins og væntingar fólks til hans, nú og í framtíðinni.

Um það leyti sem ég skipaði nefndina voru miklar umræður um stöðu öldrunarmála í Hafnarfirði, einkum um aðstæður á hjúkrunarheimilinu Sólvangi. Og þær voru vissulega erfiðar vegna þrengsla, þar sem flestir íbúar bjuggu í fjölbýli og sameiginlegt rými ekki fallið fyrir svo margt heimilisfólk. Starfsfólki Sólvangs hefur tekist að gera það allra besta úr aðstæðum og ég veit að umönnun aldraðra á Sólvangi hefur ávallt þótt afar góð. En það er staðreynd að Sólvangur hefur ekki uppfyllt kröfur nútímans hvað aðstöðu varðar og því þurfti að breyta. Til að bregðast við ákvað ég í desember að stöðva inntöku nýrra vistmanna á Sólvangi og er miðað við að þar muni ekki búa fleiri en hið mesta 60 einstaklingar í árslok 2006. Ég lét einnig hefjast handa við að útbúa sérstaka aðstöðu fyrir heilabilaða, en þá aðstöðu skorti sárlega. Deildin er tilbúin, rúmar sjö vistmenn og er tvímælalaust til þess fallin að bæta verulega þjónustu við íbúa Sólvangs.

Til að koma til móts við fækkun hjúkrunarrýma á Sólvangi var samið við Hrafnistu um að breyta 10 dvalarrýmum í hjúkrunarrými í samræmi við tillögur nefndarinnar sem hér er verið að kynna. Einnig hefur verið samið um tímabundinn forgang Hafnfirðinga að þeim 5 rýmum á Vífilsstöðum sem Hrafnista hefur til ráðstöfunar.

Fleira vil ég nefna sem til framfara horfir í öldrunarþjónustu í Hafnarfirði. Ég hef ákveðið að koma nú þegar á fót fjórum nýjum rýmum til hvíldarinnlagna í Hafnarfirði. Eins ætla ég að veita fé til að bæta við einu stöðugildi hjúkrunarfræðings í Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins til að efla heimahjúkrun og sinna næturþjónustu og munu Hafnfirðingar njóta góðs af því.

Í þessari viku verður formlega tekin í notkun dagþjálfun fyrir minnissjúka í Drafnarhúsinu við Strandgötu 75 þar sem verða rými fyrir 20 manns. Að rekstrinum stendur Félag aðstandenda alzheimersjúklinga og annarra minnissjúkra en daggjöld eru greidd af ríkinu. Þá hefur tekið til starfa ný og glæsileg heilsugæslustöð í Hafnarfirði sem að sjálfsögðu verður til þess að efla og bæta nærþjónustu við alla Hafnfirðinga, unga sem aldna.

En aftur að tillögum nefndar um uppbyggingu heildrænnar öldrunarþjónustu í Hafnarfirði.

Eins og Vilborg Ingólfsdóttir, formaður nefndarinnar, mun gera grein fyrir hér á eftir, skiptast tillögurnar í fimm flokka eftir markmiðum þeirra og eru allmargar tillögur í hverjum flokki. Flestar eru þær í flokknum sem snýr að uppbyggingu þjónustu til að styðja við sjálfstæða búsetu aldraðra, enda kemur afar skýrt fram í skýrslu nefndarinnar það skuli ávallt vera meginmarkmið öldrunarþjónustu. Undir þetta tek ég, sannfærður um að með sterkari þjónustu og stuðningi við aldraða sem búa heima megi draga úr eftirspurn eftir hjúkrunarrýmum - og það sem ekki er síður mikils virði - að bæta lífsgæði aldraðra.

Aukin heimahjúkrun og þjónusta allan sólarhringinn eftir þörfum, fjölgun dagvistarrýma, efling félagslegrar heimaþjónustu, bætt upplýsingaþjónusta við aldraða um þjónustutilboð og réttindi þeirra, allt þetta og margt fleira er að finna í tillögum nefndarinnar. Þá er lagt til að unnið verði að formlegri samþættingu heimahjúkrunar og félagslegrar heimaþjónustu með sameiginlegri faglegri stjórn. Þetta veit ég að er mikilvægt og ég horfi bjartsýnn til þeirrar vinnu þar sem ég er sannfærður um að það góða samstarf sem endurspeglast í tillögum nefndarinnar sem hér er verið að kynna muni leiða til áframhaldandi árangursríkrar samvinnu.

Ég veit að mörg sveitarfélög hafa mikinn hug á því að taka alfarið í sínar hendur þjónustu við aldraða ásamt heilsugæsluþjónustu og telja þá leið farsælasta til að sinna nærþjónustu við íbúa sína. Þessi mál eru í deiglunni og kunna að verða þar um sinn áður en af slíkum verkefnaflutningi getur orðið. En við getum nýtt tímann með því að því að bræða sem mest saman þá þjónustu sem ríkið sinnir annars vegar og sveitarfélögin hins vegar með auknu samstarfi og samþættingu.

Ég lít svo á að með vinnu Hafnarfjarðarnefndarinnar hafi verið stigin skref í þessa átt. Mín von er sú að þetta samstarf sem hófst með starfi nefndarinnar geti orðið mikilvægur undirbúningur að mögulegri tilfærslu verkefna þegar fram líða stundir, - ekki aðeins fyrir Hafnarfjörð heldur einnig sem verkefni til að draga af lærdóm í víðara samhengi.

Hálfnað er verk þá hafið er, svo nú erum við komin hálfa leið að settu háleitu marki. En við þurfum að halda áfram og tryggja öruggan framgang tillagna nefndarinnar til skemmri og lengri tíma.

Ég hvet til áframhaldandi góðs samstarfs ráðuneytis míns og Hafnarfjarðarbæjar sem ég tel hafa verið til fyrirmyndar. Því vil ég nota tækifærið og óska eftir því við bæjaryfirvöld hér í Hafnarfirði að þau tilnefni tvo til þrjá aðila til samstarfs við ráðuneytið þannig að við getum átt formlegan vettvang til samráðs um framkvæmd tillagnanna.

Að lokum þakka ég nefndinni enn og aftur fyrir gott verk og vísa því til Vilborgar Ingólfsdóttur að kynna ykkur betur tillögur nefndarinnar.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta