Hoppa yfir valmynd
14. febrúar 2006 Dómsmálaráðuneytið

Frumvarp vegna kynferðisbrota kynnt.

Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, hefur lagt fyrir ríkisstjórn til kynningar frumvarp um endurskoðun á tilteknum ákvæðum almennra hegningarlaga um kynferðisbrot.

Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, hefur lagt fyrir ríkisstjórn til kynningar frumvarp um endurskoðun á tilteknum ákvæðum almennra hegningarlaga um kynferðisbrot. Endurskoðunin tekur til eftirtalinna brota:

  1. Nauðgunar og annarra brota gegn kynfrelsi fólks, 194. – 199. gr., sbr. 205. gr. hgl.
  2. Kynferðisbrota gegn börnum, 200. – 202. gr., sbr. 204. gr. hgl.
  3. Vændi, 206. gr. hgl.

Frumvarpið er samið af Ragnheiði Bragadóttur, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, að beiðni dóms- og kirkjumálaráðherra. Byggist það á rannsóknum höfundar á dómaframkvæmd Hæstaréttar, könnun á löggjöf nágrannaríkjanna og upplýsingum sem fram koma í ýmsum félagsfræðilegum og afbrotafræðilegum rannsóknum og gögnum. Þá hefur höfundur frumvarpsins leitast við að kynna sér reynslu ýmissa aðila sem starfað hafa með þolendum brotanna. Á grundvelli allra þessara gagna er miðað að því að hafa hin nýju ákvæði þannig úr garði gerð að þau þjóni sem best hagsmunum þolenda brotanna, sem í flestum tilvikum eru konur og börn.

Í frumvarpinu eru lögð til ýmis nýmæli, meðal annars:

  1. Lagt er til að hugtakið nauðgun verði rýmkað mjög frá því sem nú er. Gert er ráð fyrir að önnur kynferðisnauðung (nú 195. gr.) og misnotkun á bágu andlegu ástandi og því að þolandi getur ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans (nú 196. gr.) teljist nauðgun. Við það munu brot þessi varða mun þyngri refsingu en nú er, eða fangelsi frá 1 ári og allt að 16 árum, í stað fangelsis allt að 6 árum og af því leiðir, að fyrningarfrestur vegna þessara brota lengist. Þá er lagt er til að lögfest verði ákvæði um nokkur atriði sem verka skuli til þyngingar við ákvörðun refsingar fyrir nauðgun. Eitt þeirra er ungur aldur þolenda.
  2. Refsing fyrir samræði og önnur kynferðismök við barn yngra en 14 ára verði þyngd og verði refsimörkin hin sömu og fyrir nauðgun, þ. e. fangelsi frá 1 ári og allt að 16 árum. Með því er lögð áhersla á hve alvarleg þessi brot eru þegar þau beinast gegn börnum, og teljast þá nauðgun og kynmök við börn yngri en 14 ára alvarlegustu kynferðisbrotin, í stað nauðgunar einnar áður.
  3. Upphaf fyrningarfrests kynferðisbrota miðist við 18 ára aldur brotaþola, en ekki 14 ár eins og nú er. Refsihámark fyrir kynferðislega áreitni gegn börnum verði hækkað þannig að brot gegn yngstu börnunum munu fyrnast á lengri tíma en samkvæmt núgildandi lögum.
  4. Lögfest verði almennt ákvæði um refsiábyrgð vegna kynferðislegrar áreitni
  5. Ákvæði 1. mgr. 206. gr. um refsingu fyrir að stunda vændi sér til framfærslu falli niður. Þess í stað verði lögfest ákvæði um refsinæmi þess að bjóða fram, miðla eða óska eftir kynmökum við annan mann í opinberum auglýsingum.

Frumvarpið er birt á heimasíðu dómsmálaráðuneytisins og þar er unnt, að segja álit á frumvarpinu, áður en það verður lagt fyrir Alþingi. Jafnframt mun Ragnheiður Bragadóttir, prófessor, höfundur frumvarpsins ræða efni þess á málstofu í lagadeild Háskóla Íslands 3. mars n.k. Að lokinni þessari kynningu eða um 8. mars verður tekin ákvörðun um efni frumvarpsins eins og það verður lagt fyrir Alþingi.

Reykjavík 14. febrúar 2006

 

Frumvarp vegna kynferðisbrota (PDF)
Frumvarp vegna kynferðisbrota (RTF-skjal lesanlegt með ritvinnsluforriti)

 

Almenn hegningarlög 82. gr.

Almenn hegningarlög nr. 19/1940 195 gr. og þar eftir.

 

Umsagnir sendist rafrænt til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins á netfangið: [email protected].



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta