Hoppa yfir valmynd
14. febrúar 2006 Matvælaráðuneytið

Viðskiptatækifæri í sjávarútvegi

Fréttatilkynning frá sjávarútvegsráðuneyti

Viðskiptatækifæri í sjávarútvegi, ræða Einars K. Guðfinnssonar sjávarútvegsráðherra á sjávarútvegssýningu í Noregi.

 

Einar K. Guðfinnsson sjávaraútvegsráðherra flutti í dag ræðu á ráðstefnu í tilefni North Atlantic Seafood sjávarútvegssýningarinnar í Lilleström í Noregi. Í ræðunni harmaði ráðherra að Norðmenn hefðu rofið samkomulag um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum og brýndi fyrir þeim í hvaða voða það gæti stefnt stofninum. Ráðherra fjallaði um viðskiptatækifæri í sjávarútvegi og lagði út frá því með þrennum hætti:

Í fyrsta lagi hvernig íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið og s.k. þrískipting þess hefur lagt grunninn að traustum, góðum og arðvænlegum atvinnuvegi, auk þess að stuðla að eflingu byggðar í sjávarþorpum. Með þrískiptingu fiskveiðistjórnunarkerfisins er vísað til þess að það er byggt upp á aflamarkskerfi, krókaaflamarkskerfi og byggðatengdum úrræðum þ.e. byggðakvóta og línuívilnun.

Í öðru lagi ræddi ráðherra um mikilvægi ábyrgrar fiskveiðistjórnunar, ekki hvað síst á deilistofnum eins og t.d. norsk-íslensku síldinni. Harmaði hann að Norðmenn hefðu rofið samkomulag um stjórn síldveiða sem hafði verið í gildi um árabil, og þar með hugsanlega búið til ástand óstjórnar og ofveiða. Minnti hann á að stofninn hafi verið ofveiddur áður og allir ættu að vita hvernig fór þá. Taldi hann best fyrir alla sem hafa hagsmuni af síldveiðum að semja um stjórn veiðanna og tryggja þannig sjálfbærni þeirra. Þetta ætti ekki síst við um Norðmenn sjálfa þar sem þeir, sem stærsti hluthafinn í stofninum, hefðu mesta hagsmuni allra af því að viðhalda sterkum stofni. Því væru aðgerðir Norðmanna illskiljanlegar. Þá var áréttað mikilvægi þess að stöðva ólöglegar og óábyrgar veiðar, svokallaðar sjóræningjaveiðar, í úthöfunum.

Í þriðja lagi fjallaði ráðherra um nauðsyn þess að auka virði sjávarfangs þegar þjóðir standa frammi fyrir því, líkt og Íslendingar, að flestir fiskistofnar eru að verða fullnýttir.

Á fimmta hundrað hagsmunaaðila í sjávarútvegi hvaðanæva úr heiminum sóttu ráðstefnuna og voru ræðumenn frá sjö löndum. Greinilegt er að ólöglegar og óábyrgar veiðar brenna á fleirum en Íslendingum því margir ræðumanna fjölluðu m.a. um þær í erindum sínum hve mikilvægt sé að koma böndum á slíkar veiðar.

Sömuleiðis varð mörgum tíðrætt um mikilvægi þess að auka verðmæti sjávarafurða, enda vex afli úr höfunum ekki lengur í líkingu við það sem áður var, heldur byggist vöxturinn á fiskeldi. 

Ráðstefnan er haldin í tengslum við sjávarútvegssýningu og matvælasýningu í Lilleström 14.-18 febrúar og taka íslensk fyrirtæki taka þátt í þeim. Reiknað er með 25 þúsund gestum á sýningarnar.

EKG í ræðustól í Noregi 14 feb 06

 

 

 

 

 

 

Ræða ráðherra

 

                                                                        Sjávarútvegsráðuneytinu 14. febrúar 2006

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta