Hoppa yfir valmynd
17. febrúar 2006 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Styrkir til háskólanáms í Kína, Rússlandi og Tékklandi

Stjórnvöld Alþýðulýðveldisins Kína bjóða fram styrk handa Íslendingi til náms í kínversku við háskóla í Kína námsárið 2006-2007.

Stjórnvöld Alþýðulýðveldisins Kína bjóða fram styrk handa Íslendingi til náms í kínversku við háskóla í Kína námsárið 2006-2007. Umsækjendur um styrki til grunnnáms í háskóla skulu vera yngri en 25 ára og yngri en 35 ára ef þeir sækja um nám á meistarastigi. Umsóknarfrestur er til 30. mars nk.

Stjórnvöld í Rússlandi bjóða einnig fram einn styrk handa Íslendingi til háskólanáms skólaárið 2006-2007 og þrjá styrki til skemmri námsdvalar eða rannsókna í Rússlandi á sama námsári.

Umsækjendur um styrki til háskólanáms í Rússlandi skulu að öðru jöfnu vera yngri en 25 ára og umsækjendur um styrki til skemmri námsdvalar eða rannsókna skulu vera yngri en 35 ára og hafa lokið MA- eða MS-prófi. Fyrrnefndu styrkirnir nema 600 rúblum á mánuði (u.þ.b. 1.350 ísl. kr.) en þeir síðarnefndu 1.500 rúblum á mánuði (u.þ.b. 3.400 ísl. kr.). Að auki verður styrkþegum séð fyrir herbergi á stúdentagarði sem þeir greiða fyrir sömu leigu og rússneskir námsmenn. Styrkþegar greiða sjálfir allan ferðakostnað. Nánari upplýsingar og umsóknareyðublöð fást í menntamálaráðuneytinu. Umsóknarfrestur er til 30. mars nk.

Einnig er gert ráð fyrir að tékknesk stjórnvöld bjóði fram styrk til átta mánaða námsdvalar við háskóla í Tékklandi skólaárið 2006-2007. Styrkir til skemmri námsdvalar koma einnig til greina, þó ekki skemur en til þriggja mánaða. Umsóknarfrestur er til 15. mars nk.

Umsóknir skal senda til menntamálaráðuneytis, Sölvhólsgötu 4, 150 Reykjavík. Umsóknum fylgi staðfest afrit prófskírteina ásamt meðmælum og læknisvottorði.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta