Fundur forsætisráðherra með forsætisráðherra Bretlands
Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra átti fyrr í dag fund í Downingstræti 10 með Tony Blair forsætisráðherra Bretlands. Á fundinum minntust ráðherrarnir þess að um þessar mundir eru 30 ár síðan forsætisráðherra Íslands heimsótti starfsbróður sinn í Bretlandi síðast. Þá ræddu þeir einnig horfur og þróun mála innan Evrópusambandsins, öryggismál á Norður-Atlantshafi, þar með talið stöðuna í samningaviðræðum Íslands og Bandaríkjanna um varnarsamstarf landanna, og ástandið í Miðausturlöndum.
Að loknum þeim fundi hélt forsætisráðherra erindi um fjárfestingar íslenskra fyrirtækja á Bretlandi á hádegisfundi sem KB banki og dótturfélög bankans boðuðu til. Sá fundur var fjölsóttur af fulltrúum úr bresku fjármála- og atvinnulífi, ásamt breskum fjölmiðlum. Síðar í dag kynnir forsætisráðherra sér svo starfsemi fyrirtækja í eigu Baugs Group. Í kvöld mun forsætisráðherra svo þiggja boð Eiðs Smára Guðjohnsen, fyrirliða íslenska landsliðsins í knattspyrnu og leikmanns Chelsea, og horfa á leik Chelsea og Barcelona á Stamford Bridge.
Næstu tvo daga mun forsætisráðherra heimsækja fleiri íslensk fyrirtæki í Lundúnum.
Reykjavík 22. febrúar 2006