Hoppa yfir valmynd
22. febrúar 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Nýr samstarfssáttmáli ríkis og sveitarfélaga undirritaður

Félagsmálaráðherra og fjármálaráðherra undirrituðu í gær, fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands, nýjan samstarfssáttmála ríkis og sveitarfélaga.

Að stofni til er nýi sáttmálinn að flestu leyti í samræmi við eldri sáttmála, sem byggir á norrænni fyrirmynd, en hins vegar er umfjöllun um einstaka þætti samstarfsins mun ítarlegri. Megináhersla er lögð á að efla samráð um efnahags- og kjaramál og auka formfestu í samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Á grundvelli sáttmálans starfa tvær samráðsnefndir skipaðar fulltrúum félagsmálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Annars vegar er um að ræða samráðsnefnd um efnahagsmál og hins vegar kjaramálanefnd. Auk þess er í sáttmálanum kveðið á um samstarf í EES-málum sem miðar að því að festa í sessi framkvæmd í samræmi við tillögur sem starfshópur á vegum utanríkisráðuneytis lagði fram í janúar 2004.

Undirritun samstarfssáttmálans fór fram samráðsfundi fulltrúa stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga og félagsmálaráðherra og fjármálaráðherra. Samráðsfundur verður framvegis haldinn ár hvert og er markmið fundanna að samræma viðhorf og stefnu ríkis og sveitarfélaga og ræða sameiginleg málefni. Reynsla undanfarinna ára og áratuga sýnir nauðsyn samstarfs milli ríkis og sveitarfélaga og umræður um frekari tilfærslur á verkefnum frá ríki til sveitarfélaga gerir gott samstarf milli þessara aðila enn brýnna en ella.

Skjal fyrir Acrobat ReaderSamstarfssáttmáli ríkis og sveitarfélaga (PDF - 48Kb)

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta