Hoppa yfir valmynd
23. febrúar 2006 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Fjárhagsstaða Háskólans á Akureyri

Að gefnu tilefni vill menntamálaráðuneytið taka fram að það hefur á undanförnum mánuðum unnið að því í góðri samvinnu við rektor Háskólans á Akureyri að fara yfir fjárhagsleg málefni skólans.

Að gefnu tilefni vill menntamálaráðuneytið taka fram að það hefur á undanförnum mánuðum unnið að því í góðri samvinnu við rektor Háskólans á Akureyri að fara yfir fjárhagsleg málefni skólans.

Markmið þeirrar vinnu er að finna varanlega lausn á málefnum skólans með samstilltu átaki ráðuneytis og stjórnenda HA þannig að þessi mikilvæga stofnun geti haldið áfram að vaxa og dafna.

Menntamálaráðherra hefur á undanförnum mánuðum ítrekað rætt fjárhagsvanda Háskólans á Akureyri í ríkisstjórn.

Sá vandi sem HA stendur frammi fyrir í rekstri sínu stafar af hröðum vexti háskólans á undanförnum árum en ekki niðurskurði framlaga.

Nemendum skólans samkvæmt fjárlögum hefur frá árinu 2000 fjölgað um 123% á sama tíma og nemendum annarra háskóla fjölgaði að meðaltali um 60%. Á sama tímabili jukust fjárveitingar til HA á föstu verðlagi um 113% á sama tíma og fjárveitingar til annarra háskóla hafa aukist að meðaltali um 52%.

Vandinn er heldur ekki sá að HA fái ekki sömu framlög vegna nemenda og aðrir háskólar. Sömu framlög eru greidd til allra háskóla fyrir nemendur í sama námi. Meðalframlög til nemenda í Háskóla Íslands eru nokkuð hærri en til HA vegna þess að þar eru margir nemendur í mjög dýru námi, s.s. læknisfræði og verkfræði.

Hitt er rétt að Háskólinn á Akureyri fær ekki jafnhá rannsóknarframlög og Háskóli Íslands. Það sama á við um alla aðra háskóla á landinu enda er Háskóli Íslands helsta rannsóknarstofnun landsins. Samanburður á rannsóknarframlögum til HÍ og annarra háskóla er því ekki raunhæfur.

Húsaleiga í hinu nýja rannsóknarhúsi Borgum hefur leitt til nokkurs kostnaðarauka fyrir HA og er það eitt þeirra atriða sem nú er verið að skoða sérstaklega í sameiginlegri vinnu ráðuneytis og skólans.

Ráðuneytið hefur að fullu staðið við þau fyrirheit sem það hefur gefið í tengslum við áformaðar úrbætur. Ráðuneytið treystir því einnig að stjórnendur skólans haldi áfram að styrkja innviði skólans og færa rekstur hans til betri vegar ekki síst með það í huga að hann geti staðist ítrustu kröfur sem gerðar eru alþjóðlega til háskóla.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta