Hoppa yfir valmynd
24. febrúar 2006 Utanríkisráðuneytið

Samkomulag um viðskipti með landbúnaðarvörur við ESB

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkis- og landbúnaðarráðuneytum

Nr. 010

Í s.l. viku var undirritað samkomulag milli Íslands og Evrópusambandsins, ESB, um tvíhliðaviðskipti með landbúnaðarvörur, á grundvelli 19. gr. EES-samningsins. Umrædd grein EES samningsins kveður á um reglulega endurskoðun á viðskiptum með landbúnaðarafurðir milli EES aðildaríkjanna og Evrópusambandsins. Umrætt samkomulag er hið fyrsta sem Ísland og Evrópusambandið hafa gert um viðskipti á grundvelli þessara greinar.

Helstu niðurstöður samkomulagsins eru þessar:

Tollar falla niður í viðskiptum samningslandanna með vörur sem um er getið í viðauka I, t.d. hestum, hreindýrakjöti í heilum- og hálfum skrokkum, tómötum, agúrkum og vatni. Heilbrigðisreglur koma hins vegar í veg fyrir innflutning á lifandi hestum til Íslands eins og verið hefur til þessa. Einnig er gert ráð fyrir gagnkvæmni í viðskiptum með blóm og plöntur, þó ekki afskorin blóm né pottaplöntur undir einum metra að hæð.

Önnur helstu atriði samkomulagsins eru eftirfarandi:

Tollfrjáls lambakjötskvóti Íslands er stækkaður úr 1.350 tonnum í 1.850 tonn. Auk þess fær ESB tollfrjálsan kvóta til Íslands fyrir 25 tonn af kartöflum og 15 tonn af rjúpum. Þá verða gagnkvæmir 15 tonna tollfrjálsir kvótar opnaðir fyrir pylsur. Jafnframt fær ESB tollfrjálsan 20 tonna ostakvóta til Íslands og Ísland fær tollfrjálsan 20 tonna smjörkvóta til ESB. Loks verða tollar felldir niður af nokkrum öðrum vöruflokkum einsog jólatrjám, frosnu grænmeti og ávaxtasafa.

Samningurinn skapar ný sóknartækifæri fyrir útflutning íslenskra landbúnaðarafurða eins og t.d. á hestum, lambakjöti, smjöri o.fl. Einnig geta skapast áhugaverð sóknartækifæri fyrir útflutning á tómötum og jafnvel agúrkum. Erlendir fjárfestar hafa sýnt þeim möguleika áhuga, en forsenda þeirra viðskipta hefur verið að tollar falli niður inn á ESB markaði.

Gert er ráð fyrir að samningurinn komi til framkvæmda 1. janúar 2007.

Samningaviðræðurnar voru leiddar í sameiningu af utanríkisráðuneytinu og landbúnaðarráðuneytinu.

Utanríkis- og landbúnaðarráðuneyti

Reykjavík, 24. febrúar 2006.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta