Hoppa yfir valmynd
24. febrúar 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Um efnahagslegan stöðugleika á Íslandi

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins – þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Í skýrslu matsfyrirtækisins Fitch Ratings sem kom út í fyrradag voru langtímahorfur fyrir lánshæfismat ríkissjóðs Íslands lækkaðar úr stöðugum í neikvæðar.

Góðum einkunnum sem matsfyrirtækið veitir ríkissjóði vegna sterkrar stöðu hans var ekki breytt. Helstu ástæður tilteknar fyrir breyttum horfum voru að

i) viðskiptahalli síðasta árs varð meiri en spár bentu til,
ii) skuldsetning íslenskra heimila (m.a. vegna íbúðafjárfestinga) og fyrirtækja (m.a. vegna fjárfestinga erlendis) hefur aukist mikið og
iii) matsfyrirtækið telur að aðhald í fjármálastjórn hins opinbera sé ekki nægjanlegt.

Hjá skýrsluhöfundum hafa því vaknað efasemdir um að efnahagsþróunin á Íslandi haldist sjálfbær og minna þeir á fjármálakreppuna í Asíu á síðasta áratug í því samhengi.

Eftir að efni skýrslunnar var kynnt lækkaði verð hlutabréfa í Kauphöll Íslands og gengi krónunnar um 9%, en hvort tveggja hefur hækkað mikið að undanförnu. Skömmu síðar gekk helmingur lækkunarinnar til baka.

Aukinn viðskiptahalla á síðasta ári má að miklu leyti rekja til tveggja nýjunga á fjármálamarkaði.

Annars vegar hófu bankarnir samkeppni við Íbúðalánasjóð í ágúst 2004 með lækkun vaxta á húsnæðislánum og rýmri lánamöguleikum. Það bætti lausafjárstöðu heimila, sem ásamt styrkingu gengisins, leiddi til aukins innflutnings á neysluvörum og bifreiðum. Þá myndaðist mikil spenna á fasteignamarkaði sem einnig kynti undir verðbólgunni.

Í ágúst 2005 hófu erlendar lánastofnanir að gefa út skuldabréf í krónum. Það hafði áhrif til að styrkja gengi krónunnar enn frekar og þar með kaupmátt landsmanna erlendis, sem enn jók innflutninginn. Hátt gengi krónunnar hefur einnig ýtt undir fjárfestingar Íslendinga erlendis.

Erfitt reyndist fyrir hagstjórnina að bregðast við þessari þróun umfram það að Seðlabankinn hækkaði stýrivexti enn frekar. Þessar breytingar virðast nú að mestu gengnar yfir og útlit fyrir hægari vöxt einkaneyslu og innflutnings í ár. Á næsta ári er spáð samdrætti í fjárfestingu og innflutningi og enn hægari vexti einkaneyslu. Á sama tíma er aukin framleiðslugeta í áli að auka vöruútflutninginn mikið. Viðskiptahallinn mun því dragast hratt saman. Horfurnar eru jákvæðar hvað framhaldið varðar. Ef gengið lækkar meira má búast við að viðsnúningurinn í erlendum viðskiptum verði hraðari en ella. Það bendir því flest til þess að þróun viðskiptahallans á komandi árum verði sjálfbær.

Hvað varðar gagnrýni skýrsluhöfunda á hagstjórnina, aðallega stjórn fjármála hins opinbera, hefur fjármálaráðuneytið bent á að afkomubati hins opinbera frá 2003 til 2005 var 5,4% af landsframleiðslu, sem er eitt mesta aðhaldsstig í fjármálum OECD-ríkjanna á þeim tíma.

Þá eru langtímamarkmið ríkissjóðs í fullu gildi, en þau ganga út á að halda aftur af vexti útgjalda og leyfa tekjum í uppsveiflu að framkalla afgang. Sú fjármálastjórn hefur gefist vel í uppsveiflunni og styrkt stöðu ríkissjóðs verulega.

Það er því ekki neinum vafa undirorpið að aðhald hefur ríkt í fjármálum ríkissjóðs. Um leið er rétt að benda á að sú aðferð að beita sértækum aðgerðum í tekjum eða útgjöldum ríkissjóðs í ríkari mæli en gert hefur verið er ekki vænleg til árangurs. Þar sem margföldunaráhrif ríkisfjármála eru metin takmörkuð krefst slík hagstjórn mikilla sveiflna í ríkisbúskapnum til að draga nægjanlega úr hagvextinum, sem getur orðið rót óstöðugleika.

Þá yrði erfitt að ná þjóðfélagslegri sátt um það hvar ætti að skera niður útgjöldin, en þau eru mest á sviði mennta-, heilbrigðis- og tryggingarmála.

Til viðbótar við markvisst aðhald í ríkisbúskapnum hefur ríkisstjórnin lagt áherslu á að auka sveigjanleika hagkerfisins með því að einkavæða ríkisfyrirtæki og innleiða skipulagsbreytingar sem gera markaðsaðilum kleift að bregðast við nýjum aðstæðum og taka virkan þátt í alþjóðavæðingunni. Sú stefna hefur reynst vel og skilað landsmönnum nægri atvinnu og ört vaxandi kaupmætti.

Þrátt fyrir tímabundinn ójöfnuð er því flest sem bendir til að efnahagsþróunin haldist stöðug.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta