Staðgengill utanríkisráðherra fundar með forseta Indlands
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
Nr. 12
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, staðgengill utanríkisráðherra í opinberri heimsókn til Indlands, átti í dag fund með dr. A.P.J. Abdul Kalam, forseta Indlands. Á fundinum var rætt um tvíhliða samskipti ríkjanna á fjölmörgum sviðum, einkum hvað varðar vísindi og tækni. Forsetinn lýsti yfir mikilli ánægju með stofnun íslensks sendiráðs á Indlandi og áréttaði jafnframt vilja Indlands til að stofnsetja sendiráð Indlands á Íslandi.
Ráðherra átti fund með Kapir Sibal, vísinda- og rannsóknamálaráðherra Indlands, þar sem rædd var m.a. samvinna Íslands og Indlands á sviði jarðskjálftarannsókna og framkvæmd samkomulags ríkjanna um vísindasamvinnu sem undirritað var í Reykjavík í haust.
Ráðherra hitti jafnframt Shri Kamal Nath, viðskiptaráðherra Indlands, og ræddu þau m.a. möguleika á vaxandi viðskiptum á milli landanna.
Í lok dagsins hélt ráðherra ávarp á viðskiptaráðstefnu í Nýju-Delí, en viðskiptasendinefnd á vegum Útflutningsráðs er með ráðherra í för. Í ávarpi sínu lagði ráðherrann áherslu á tækifæri til aukinna viðskipta milli Íslands og Indlands, og hvatti viðstadda til þess að nýta sér þjónustu nýstofnaðs sendiráðs Íslands á Indlandi í þeim efnum.
Frekari upplýsingar um sendiráð Íslands á Indlandi.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamála-ráðherra og Sturla Sigurjónsson, sendiherra Íslands á Indlandi leggja blómsveig á bálfarastað Mahatma Gandhi |
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamála-ráðherra og dr. A.P.J. Abdul Kalam, forseti Indlands |
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamála-ráðherra og Shri Kamal Nath, viðskiptaráðherra Indlands |
|