Þrír af hverjum fjórum á Húsavík og í nágrenni hlynntir álveri á Bakka.
Fréttatilkynning
Nr. 2/2006
Þrír af hverjum fjórum á Húsavík og í nágrenni hlynntir álveri á Bakka
Ø Þingeyingar eru mun hlynntari því en Eyfirðingar og Skagfirðingar að reist verði álver heima í héraði.
Ø Eyfirðingar og Skagfirðingar eru hlynntari því en Þingeyingar að reist verði álver annars staðar á Norðurlandi en í heimahéraði.
Ø Þingeyingar eru mun andvígari því en Skagfirðingar að virkja vatnsafls- og jarðvarmaorku í heimahéraði fyrir álver annars staðar á Norðurlandi.
Þetta kemur fram í könnun sem IMG Gallup gerði fyrir iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið 9.-16. febrúar 2006. Í úrtaki voru fjórir 800 manna hópar í Skagafirði, Eyjafirði, á Akureyri og í Þingeyjarsýslum, alls 2.400 manns á aldrinum 16-75 ára. Svarhlutfall heildarúrtaks var 68,5%.
Afstaða Eyfirðinga
Á Akureyri og í Eyjafirði eru 47,2% svarenda hlynnt álveri á Dysnesi við Eyjafjörð en 42,5% andvíg.
- 66,3% Eyfirðinga eru hlynnt því að reisa álver annars staðar á Norðurlandi en á Dysnesi en 24,4% eru því andvíg.
Afstaða Skagfirðinga
Í Skagafirði eru 48,5% svarenda hlynnt álveri á Brimnesi í Skagafirði en 40,8% eru andvíg.
- 64,8% Skagfirðinga eru hlynnt því að reisa álver annars staðar á Norðurlandi en á Brimnesi en 25,1% eru því andvíg.
- 50,9% Skagfirðinga eru því andvíg að reisa álver annars staðar á Norðurlandi en á Brimnesi og sjá því fyrir orku vatnsaflsvirkjana á Skagafjarðarsvæðinu en 44,5% eru því fylgjandi.
Afstaða Þingeyinga
Á Húsavík og í nágrenni eru 77,1% svarenda hlynnt álveri á Bakka við Húsavík en 17% eru því andvíg.
- 52,8% Þingeyinga eru hlynnt því að reisa álver annars staðar á Norðurlandi en á Bakka en 35,5% eru því andvíg.
- 59,3% Þingeyinga eru andvíg því að reisa álver annars staðar á Norðurlandi og sjá því fyrir orku með virkjun Skjálfandafljóts og jarðvarma í Þingeyjarsýslu en 30,6% eru því fylgjandi.
Viðhorf hafa breyst merkjanlega á Norðurlandi á einu ári
IMG Gallup lagði spurningar um stóriðjumál fyrir Norðlendinga fyrir einu ári, í febrúar 2005. Samanburður niðurstaðna þá og nú leiðir í ljós verulega aukinn stuðning við álver í Skagafirði og Þingeyjarsýslum og á báðum stöðum mælist jafnframt aukin andstaða við að virkja orku í heimahéraði fyrir álver annars staðar á Norðurlandi. Hlutfallslega færri Eyfirðingar eru hins vegar hlynntir álveri nú en fyrir einu ári og andstaða við álver á Dysnesi mælist meiri nú en í febrúar 2005.
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
25. febrúar 2006.
Gallup-könnunin. (pdf-skjal, 574 Kb)