Verðhækkun íbúðarhúsnæðis í rénun
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins – þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Þess eru nokkuð skýr merki að þær verðhækkanir sem einkenndu fasteignamarkaðinn í upphafi síðasta árs séu nú í rénun.
Fasteignaverð hefur staðið í stað á undanförnum mánuðum sem kemur fram í því að hratt dregur úr mánaðarlegum hækkunum. Sömuleiðis gefa upplýsingar um veltu á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu til kynna að markaðurinn sé að róast eftir mjög líflegt tímabil á sl. ári. Þessi þróun kemur fram í vísitölu neysluverðs með tímatöf, þar sem fasteignaverð er mælt með meðaltali sl. þriggja mánaða.
Verði svo, sem nú horfir, að fasteignaverð standi í stað eða hækki lítið héðan í frá, á það eftir að hafa áhrif til lækkunar á verðbólgu mælda með neysluverðsvísitölunni.
Tólf mánaða hækkun neysluverðsvísitölu í febrúar 2006 um 4,1% var að tveimur þriðju hlutum tilkomin vegna hækkunar fasteignaverðs. Að húsnæði undanskildu hækkaði vísitala neysluverðs um 1,5% á sama tíma.
Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd hefur tólf mánaða hækkun fasteignaverðs minnnkað úr 40% í ágúst 2005 í 25% í janúar 2006. Þriggja mánaða breyting fasteignaverðs hefur minnkað úr um 13% í mars 2005 í 3% og mánaðarleg breyting hefur minnkað úr 6% í janúar 2005 í 0,5% í janúar 2006.