Hoppa yfir valmynd
1. mars 2006 Forsætisráðuneytið

Samstarfsráðherrar Norðurlanda ræða norrænu fjárlögin og samskipti við Rússland og Hvítarússland

Sigríður Anna Þórðardóttir og Heidi Grande Røys, samstarfsráðherra Noregs, en Norðmenn fara nú með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni.
Sigríður Anna Þórðardóttir og Heidi Grande Røys, samstarfsráðherra Noregs, en Norðmenn fara nú með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni.
  • Línur lagðar um áherslur Norrænu ráðherranefndarinnar árið 2007
  • Fjallað um áætlun Norðurlanda um sjálfbæra þróun
  • Rætt um nýja heildarstefnumótun í málefnum barna og ungmenna
  • Áætlanir um samstarf við frjáls félagasamtök í Eystrasaltsríkjunum, Rússlandi og Hvítarússlandi
  • Ný skrifstofa ráðherranefndarinnar í rússnesku borginni Kaliningrad

Sigríður Anna Þórðardóttir sækir fund samstarfsráðherra Norðurlanda í Kaupmannahöfn miðvikudaginn 1. mars. Á þessum fyrsta fundi ársins verða lagðar línurnar um helstu áherslurnar í starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar og ákvörðun tekin um heildarupphæð norrænu fjárlaganna fyrir árið 2007. Í ár nema norrænu fjárlögin 840 milljónum danskra króna, eða sem nemur rúmlega 9 milljörðum íslenskra króna.

Á fundinum verður einnig fjallað um áætlun Norðurlanda um sjálfbæra þróun 2005-2008 og kynningu á henni. Norðurlönd samþykktu fyrstu áætlun sína um sjálfbær Norðurlönd árið 2001 og voru fyrst ríkja til að ákveða sameiginlega stefnumótun fyrir slíkt svæði. Mikil brautryðjendavinna hefur verið lögð í þróun svokallaðra umhverfisvísa til þess að mæla og fylgjast með árangri aðgerða. Í áætluninni eru sett fram markmið og verkefni fyrir tímabilið, en Norðurlönd hafa mótað sér langtímamarkmið í þessum efnum fram til ársins 2020. Finnar taka við formennsku í ESB 1. júlí 2006 og verður það tækifæri nýtt til þess að kynna áætlunina með skipulegum hætti á vettvangi ESB.

Á fundinum munu samstarfsráðherrarnir einnig ræða norrænt samstarf um málefni barna og ungmenna á aldrinum 0-25 ára, en nánast öll fagsvið Norrænu ráðherranefndarinnar koma þar að með einum eða öðrum hætti. Til stendur að samþykkja nýja heildarstefnumótun um málefni barna og ungmenna og þriggja ára framkvæmdaáætlun um starfsemi Norrænu barna- og æskulýðsnefndarinnar. Með þessari stefnumótun er ætlunin að skerpa áhersluna á málefnið og virkja nánast öll svið starfseminnar til að gæta betur en hingað til að hagsmunum ungra Norðurlandabúa. Hafa skal að leiðarljósi jafnan rétt allra barna og ungmenna á Norðurlöndum til þess að geta haft áhrif á eigið líf og njóta góðra lífsskilyrða án tillits til kynferðis, kynþáttar, efnahagsaðstæðna, aldurs, búsetu, kynhegðunar, fötlunar eða annarra sérþarfa.

Þá eru á dagskrá áætlanir Norrænu ráðherranefndarinnar um samstarf við frjáls félagasamtök í Eystrasaltsríkjunum, Rússlandi og Hvítarússlandi. Ráðherranefndin hefur látið sér annt um starfsemi frjálsra félagasamtaka í þessum löndum enda er það metið svo að stuðningur við þau geti stuðlað að lýðræðislegri og friðsamlegri samfélagsþróun á austlægum grannsvæðum Norðurlanda.

Loks má geta þess að opnun nýrrar skrifstofu ráðherranefndarinnar í rússnesku borginni Kaliningrad við Eystrasalt er einnig á dagskrá fundarins, en samkomulag við Rússland um starfsemina var undirritað rétt fyrir síðustu jól. Auglýst hefur verið eftir framkvæmdastjóra í dagblöðum á öllum Norðurlöndum. Stefnt er að því að ganga frá ráðningu hans á næstu vikum og að nýja skrifstofan geti hafið starfsemi á vormánuðum.

 

 

                                                                       Reykjavík 1. mars 2006



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta