Jafnréttismál
Þrjátíu ár eru liðin frá því að fyrstu lögin um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla voru samþykkt á Alþingi. Margt hefur áunnist á þeim tíma enda þótt ljóst sé að gera þurfi enn betur svo jafnrétti milli kvenna og karla verði náð. Jafnréttismálin eru sífellt að þróast og mikilvægt er að sú þróun endurspeglist í gildandi löggjöf á hverjum tíma. Jón Kristjánsson félagsmálaráðherra hefur því ákveðið að skipa nefnd sem hefur það hlutverk að endurskoða efni gildandi laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Ráðgert er að fulltrúar stjórnmálaflokka sem eiga þingsæti á Alþingi eigi þar einn fulltrúa hver auk fulltrúa félagsmálaráðherra og Jafnréttisstofu.
Enn fremur hefur félagsmálaráðherra ákveðið að skipa starfshóp sem ætlað er að skipuleggja þverpólitískar aðgerðir til að jafna hlut kynjanna við næstu alþingiskosningar sem fyrirhugaðar eru vorið 2007. Mikilvægt er að hlutfall kynjanna sé sem jafnast á Alþingi en markmiðið með slíkum aðgerðum er fyrst og fremst að vinna að jöfnum áhrifum kvenna og karla við ákvarðanatöku og stefnumótun í samfélaginu. Eftir síðustu alþingiskosningar árið 2003 var kynjahlutfall þingmanna þannig að karlar voru 44 eða 70% og konur voru 19 eða 30%. Við síðustu áramót var staðan sú að konur voru 35% þingmanna eða 22 og karlar voru 65% eða 41. Stefnt er að því að hver stjórnmálaflokkur sem á sæti á Alþingi eigi fulltrúa í starfshópnum enda geta þeir sem virkir þátttakendur í íslensku stjórnmálalífi haft áhrif á þessu sviði.