Ávarp umhverfisráðherra á ráðstefnu slökkviliðsstjóra 2006
Ágætu slökkviliðsstjórar og aðrir ráðstefnugestir
Eins og ykkur er kunnugt hefur verið ákveðið að ráðstafa 100 milljónum króna á þessu ári til að koma upp sérhæfðum búnaði sem eykur verulega öryggi almennings víðs vegar um landið. Það er ánægjulegt að vera hér með ykkur af þessu tilefni.
Ég veit að þetta átak í að efla tækjabúnað slökkviliðanna um allt land breytir miklu um möguleika þeirra til æfinga og eflir þannig hæfni slökkviliðsmannanna sjálfra til að takast á við margbreytileg viðfangsefni. Jafnframt því styrkir bættur tækjabúnaður getu slökkviliðanna til að takast á við verkefni sín af meira öryggi en áður og styttir viðbragðstíma þeirra. Þetta á sérstaklega við úti á landi þar sem fjarlægðir og samgöngur eru með öðrum hætti en hér á höfuðborgarsvæðinu.
Á þessari ráðstefnu liggja fyrir tillögur umhverfisráðuneytisins og Brunamálastofnunar um fyrirkomulag og samsetningu þess útbúnaðar sem fyrirhugað er að kaupa fyrir þá fjármuni sem til ráðstöfunar eru. Það er hins vegar hlutverk ykkar slökkviliðsmanna að fjalla um tillögurnar og móta endanlegar tillögur um útfærslur og fyrirkomulag í ljósi reynslu ykkar og þekkingar. Þær tillögur verða síðan lagðar fyrir Ríkiskaup sem aflar tilboða í þann búnað sem þið teljið æskilegastan.
Gangi allt að óskum verður þessi búnaður kominn á þá staði þar sem hann verður varðveittur og tilbúinn til notkunar þegar á þessu ári. Enda þótt sum slökkvilið búi nú þegar yfir miklum og góðum tækjabúnaði þá eru þau fleiri sem vantar búnað bæði til æfinga og viðbragða. Ég er þess fullviss að það átak sem nú er ýtt úr vör til að efla slökkviliðin breytir aðstöðu margra þeirra umtalsvert til hins betra og treystir verulega öryggi íbúa landsins alls.
Á síðari degi ráðstefnunnar verður farið í kynnisferð í Björgunarmiðstöðina í Skógarhlíð. Það er ánægjulegt að upplifa þær breytingar á neyðaröryggisviðbúnaði landsins sem orðið hafa með tilkomu hennar og eru til þess fallnar að auka öryggi almennings, stytta viðbragðstíma og jafnframt bæta hagkvæmni með tilliti til nýtingar á mannafla og tækjabúnaði. Mikilvægi slíkrar miðstöðvar kemur einkum fram þegar stóratburðir gerast og það er því gott til þess að vita að hér hafa menn tekið höndum saman og komið fyrir á einum stað öllum helstu björgunar- og viðbúnaðaraðilum á landinu.
Ég vænti þess að þessi ráðstefna skili tillögum um útfærslu búnaðar svo að unnt sé að hraða útboðsferli og ljúka málinu okkur öllum til hagsbóta.
Ég vil að lokum óska ykkur velfarnaðar í krefjandi störfum ykkar og segi ég ráðstefnu slökkviliðsstjóra 2006 setta.