Opinber heimsókn utanríkisráðherra til Noregs
Geir H. Haarde, utanríkisráðherra, og eiginkona hans, Inga Jóna Þórðardóttir, eru í tveggja daga opinberri heimsókn í Noregi, í boði Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs.
Heimsóknin hófst með áheyrn hjá Haraldi Noregskonungi í höll konungs í Osló.
Utanríkisráðherra átti hádegisverðarfund með varnarmálaráðherra Noregs, Anne-Grete Ström-Erichsen, þar sem rædd voru öryggis- og varnarmál, m.a. þátttaka ríkjanna og samstarf í friðargæslu, norrænt samstarf á sviði varnarmála o.fl.
Síðdegis átti ráðherra fund með norska starfsbróður sínum, Jonas Gahr Støre. Ræddu þeir samskipti landanna á breiðum grundvelli, meðal annars fiskveiðimál og svæðasamstarf. Farið var yfir stöðu mála á Evrópska efnahagssvæðinu og voru ráðherrarnir sammála um að rekstur EES-samningsins gengi afar vel. Þá ræddu ráðherrarnir framvinda mála í Evrópusambandinu og fyrirhugaða stækkun sambandsins. Rætt var um málefni Atlantshafsbandalagsins og varnar- og öryggismál almennt.
Ennfremur var rætt um framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og reifuð þau mál, sem efst eru á baugi á alþjóðavettvangi um þessar mundir.
Ráðherra átti einnig fund með Torbjørn Jagland, forseta Stórþingsins, og utanríkismálanefnd þingsins.
Í kvöld sitja ráðherrahjónin kvöldverðarboð Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, þeim til heiðurs.
Á morgun verða utanríkisráðherrar beggja landanna viðstaddir stofnun Norsk-íslensks viðskiptaráðs í bústað sendiherra Íslands í Osló. Að því loknu halda ráðherrahjónin til Stavanger þar sem þau munu m.a. heimsækja herstjórnarmiðstöð Atlantshafsbandalagsins. Þá heldur ráðherra erindi um stöðu Íslands í hnattvæddum heimi í hátíðarsal Stavangerháskóla og heimsækir höfuðstöðvar Statoil í Stavanger.
Heimsókninni lýkur annað kvöld með kvöldverði bæjarstjórnar Stavanger utanríkisráðherrahjónunum til heiðurs.