Hoppa yfir valmynd
10. mars 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Lögfræðingur

Laus er til umsóknar staða lögfræðings hjá jafnréttis- og vinnumálaskrifstofu félagsmálaráðuneytisins. Um er að ræða krefjandi starf sem felur í sér fjölbreytt verkefni á sviði vinnuréttar, vinnuverndar og jafnréttismála, þar á meðal smíði frumvarpa og reglugerða og gerð úrskurða.

Félagsmálaráðuneytið er áhugaverður vinnustaður þar sem starfsfólk vinnur að fjölbreyttum verkefnum, meðal annars á sviði jafnréttis-, vinnumarkaðs- og vinnuverndarmála, fjölskyldumála og málefna fatlaðra auk sveitarstjórnar- og húsnæðismála. Alþjóðasamskipti og samskipti innan stjórnsýslunnar við önnur ráðuneyti og stofnanir og samráð við hagsmunasamtök er viðamikill þáttur í daglegu starfi á öllum sviðum. Félagsmálaráðuneytið leggur áherslu á að veita almenningi góða þjónustu og að nýta upplýsingatæknina í því skyni. Nánari upplýsingar um ráðuneytið og starfsemi þess má finna á heimasíðu ráðuneytisins.

Við leitum að einstaklingi sem er jákvæður og reiðubúinn að takast á við krefjandi verkefni, góður í mannlegum samskiptum, er nákvæmur, skipulagður og sjálfstæður í vinnubrögðum.

Menntunarskilyrði eru embættispróf eða meistarapróf í lögfræði. Enn fremur er lögð áhersla á almenna færni í ensku og a.m.k. einu Norðurlandamáli. Góð almenn tölvukunnátta er nauðsynleg og reynsla af notkun á Lotus Notes æskileg. Einnig er reynsla af störfum innan stjórnsýslunnar eða sambærilegum störfum kostur.

Miðað er við að ráða í stöðuna sem fyrst.

Um kjör fer samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra og Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins. Ráðning miðast við fullt starf.

Nánari upplýsingar veitir Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir, skrifstofustjóri, í síma 545 8100, eða í tölvupósti um netfangið [email protected]

Skriflegar umsóknir með upplýsingum um menntun og fyrri störf ásamt meðmælum berist félagsmálaráðuneytinu, Hafnarhúsinu við Tryggvagötu, 150 Reykjavík, eigi síðar en 27. mars 2006. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin.

Vakin er athygli á því að starfið stendur opið jafnt konum og körlum.

Reykjavík, 9. mars 2006

Félagsmálaráðuneytið



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum