Opinber heimsókn utanríkisráðherra til Danmerkur
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
Nr. 015
Tveggja daga opinber heimsókn Geirs H. Haarde, utanríkisráðherra, og eiginkonu hans, Ingu Jónu Þórðardóttur, til Danmerkur hófst í dag.
Dagskrá heimsóknarinnar byrjaði með fundi í varnarmálaráðuneyti Danmerkur þar sem utanríkisráðherra hitti danska varnarmálaráðherrann, Søren Gade. Danski ráðherrann gerði grein fyrir nýju skipulagi varna Danmerkur í ljósi breyttra aðstæðna í heimsmálum. Skiptust ráðherrarnir á skoðunum um hvernig best væri að bregðast við nýjum ógnum. Einnig ræddu þeir samstarf á sviði landhelgisgæslu og kom utanríkisráðherra á framfæri þakklæti til Dana fyrir þátttöku dönsku strandgæslunnar í björgunarstarfi á Hofsjökli nýlega.
Á fundi utanríkisráðherra landanna, þeirra Per Stig Møller og Geirs H. Haarde, var rætt um ýmis alþjóðamál, s.s. stöðuna í Íran, Írak og Afganistan og ástandið í Mið-Austurlöndum. Farið var yfir stöðu mála á Evrópska efnahagssvæðinu og framvinduna í Evrópusambandinu, þ.m.t. stækkun sambandsins og um stjórnarskrá þess. Einnig ræddu ráðherrarnir þá óvæntu atburðarás sem hófst með birtingu skopmynda af Múhammeð spámanni í Jyllands Posten. Ráðherrarnir ræddu framtíð dönskukennslu á Íslandi og vilja ríkisstjórna beggja landa til að treysta hana í sessi. Að lokum var til umræðu hugsanleg endurnýjun loftferðasamnings milli ríkjanna, sem lögð hefur verið áhersla á af Íslands hálfu.
Að lokinni áheyrn hjá Margréti Þórhildi Danadrottningu tók utanríkisráðherra þátt í hringborðsumræðum hjá samtökum danskra iðnrekenda með fulltrúum danskra fyrirtækja. Einnig fundaði ráðherra með forseta danska þjóðþingsins.
Heimsókn utanríkisráðherra lýkur annað kvöld. Á morgun mun hann m.a. heimsækja flotastöð danska sjóhersins í Korsør og eiga fund með utanríkisnefnd danska þingsins.