Hoppa yfir valmynd
13. mars 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Skattalegar umbætur

Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 6/2006

Í tengslum við umræður undanfarna mánuði um stöðu hátækniiðnaðar og starfsumhverfi nýsköpunar- og þróunarfyrirtækja á Íslandi hefur fjármálaráðherra ákveðið að gera skattalegar umbætur sem m.a. er ætlað að nýtast sérstaklega fyrirtækjum á sviði rannsókna, þróunar og nýsköpunar.

1. Þróunartími nýsköpunarfyrirtækja og virðisaukaskattsskráning. Lenging fyrirfram skráningar og leiðréttingarskyldu innskatts.
Ákveðið hefur verið að breyta reglugerð sem fjallar um skráningu virðisaukaskattsskyldra aðila þannig að lengdur verður tíminn sem aðilar í þróunarstarfi geta verið með fyrirfram skráningu á virðisaukaskattsskrá. Í stað sex ára verður hann nú lengdur í 12 ár. Breytingin mun m.a. koma sér vel fyrir nýsköpunarfyrirtæki sem byggja á nýrri vísinda- og tækniþekkingu þar sem þróunartími slíkra fyrirtækja er í mörgum tilfellum lengri en sex ár.

Samhliða lengingu á fyrirfram skráningu úr sex árum í tólf verður lagt fyrir Alþingi frumvarp sem tekur mið af því að leiðréttingartímabil innskatts varðandi fasteignir verði lengt úr tíu árum í tuttugu ár. Reynslan af þessu ákvæði hefur sýnt að tíu ára leiðréttingarskylda innskatts virðisauka varðandi fasteignir er of stutt tímabil. Með tvöföldun tímalengdar fyrirfram skráningar (úr sex árum í tólf ár) getur komið til þess, verði ekkert að gert, að leiðréttingartími verði liðinn þegar á leiðréttingarskyldu reynir. Er það andstætt þeim sjónarmiðum sem búa að baki reglum um fyrirfram skráningu og leiðréttingu innskatts. Er því nauðsynlegt, samhliða áðurnefndri breytingu, að lengja tímabil leiðréttingarskyldu á innskatti varðandi fasteignir, þar sem eðlilegt þykir að það tímabil sé talsvert lengra en tímabil mögulegrar fyrirfram skráningar.

2. Samlagshlutafélög og þátttaka lífeyrissjóða í nýsköpun atvinnulífsins
Lagðar eru til breytingar á lögum um tekjuskatt, þess efnis að samlagshlutafélag teljist ekki sjálfstæður skattaðili nema eftir því sé sérstaklega óskað við skráningu og að kveðið verði skýrar á um það að lífeyrissjóðir séu undanþegnir skattskyldu af hvers konar tekjum af starfsemi sem þeim er heimil. Í löggjöf nágrannaríkja Íslands er víða að finna ákvæði þess efnis að samlagshlutafélög séu ekki sjálfstæðir skattaðilar, nema annars sé óskað, og beri því að skattleggja tekjur samlagshlutafélaga hjá eigendum þeirra. Samkvæmt tillögunni verða tekjur samlagshlutafélags, sem óskar að vera óskattskyldur aðili, skattlagðar hjá eigendum. Með þessari breytingu má segja að samlagshlutafélagaformið sé vakið til lífsins og í kjölfarið skapaður grundvöllur til þess að það verði nýtt sem tæki til eflingar fjármögnunar nýsköpunar. Íslenskir lífeyrissjóðir eru meðal stærstu og virkustu fjárfesta á innlendum fjármálamarkaði og með þessari breytingu er þeim gert kleift að fjárfesta í formi samlaga eða samlagshlutafélaga, sem t.d. fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum, án þess að skattskylda myndist hjá þeim.

3. Skipun nefndar
Fjármálaráðherra hefur ákveðið að skipa nefnd sem hefur það hlutverk að leggja mat á reynslu annarra þjóða af að veita fyrirtækjum sem stunda rannsóknir, þróun og nýsköpun, ríkisstyrki í formi sértækra skattaívilnana að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Nefndin skal sérstaklega líta til reynslu Norðmanna í þessum efnum auk annarra OECD ríkja. Formaður nefndarinnar verður Friðrik Friðriksson hagfræðingur, en aðrir nefndarmenn eru Leifur Eysteinsson viðskiptafræðingur og Dr. Jón Ágúst Þorsteinsson verkfræðingur og framkvæmdastjóri Marorku.

 

Fjármálaráðuneytinu 13. mars 2006



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta