Hoppa yfir valmynd
14. mars 2006 Matvælaráðuneytið

Verk og vit 2006

Verk og vit - lógó sýningar
Verk og vit - lógó sýningar

Verk og vit 2006:

Á sýningunni munu um 120 fyrirtæki í byggingariðnaði og mannvirkjagerð, sveitarfélög, hönnuðir og ráðgjafar kynna starfsemi sína. Megináhersla verður lögð á fagmennsku, aukna þekkingu og tækninýjungar í byggingariðnaði og mannvirkjagerð en mjög örar framfarir hafa orðið á þessu sviði undanfarin ár.

Í tengslum við sýninguna, sem er bæði fyrir fagaðila og almenning, verða haldnar ráðstefnur, kynningarfundir og fleiri viðburðir. Mikill áhugi er á sýningunni og hafa öll sýningarpláss verið seld. Áhugi sýnenda og undirbúningsvinna þeirra gefa fyrirheit um að Verk og vit 2006 verði ein glæsilegasta sýning um byggingariðnað og mannvirkjagerð sem haldin hefur verið hér á landi.

Sýningin Verk og vit 2006 er opin almenningi laugardaginn 18. og sunnudaginn 19. mars en fagaðilum fimmtudag og föstudag. Á sýningunni verða áhugaverðar nýjungar í íslenskri framleiðslu kynntar auk tækja, hönnunar, ráðgjafar og þjónustu sem ýmis fyrirtæki bjóða. Skipulagsmál sveitarfélaga skipa sérstakan sess þar sem þróun, einstök verkefni og framtíðarsýn verða kynnt.

Fyrir opnun sýningarinnar verður haldin ráðstefna um þróun fasteignamarkaðarins og rekstur fasteigna. Þar verða birtar niðurstöður könnunar um eignarhald og rekstur fasteigna á Íslandi og hver verðþróun á atvinnuhúsnæði hefur verið. Farið verður yfir ólík útboðsform við stórar framkvæmdir á vegum hins opinbera og einkaaðila. Erlendur fyrirlesari mun fjalla um reynslu af fasteignarekstri á Norðurlöndum og einkaaðilar og opinberir aðilar munu rekja reynslu sína af ólíku eignarfyrirkomulagi fasteigna innanlands og erlendis.

Meðan á sýningunni stendur verða haldnar ráðstefnur og kynningarfundir, m.a. um heilbrigðan útboðsmarkað, nýja tónlistar- og ráðstefnumiðstöð við Austurhöfn og nýjan Landspítala. Ennfremur mun Reykjavíkurborg kynna hvað efst er á baugi í skipulagsmálum. Verk og vit 2006 er framhald af Byggingadögum Samtaka iðnaðarins (SI) og sýningunni Construct North, sem haldin var í Laugardalshöll 2002 á vegum SI og samstarfsaðila.

Íslenskur byggingariðnaður hefur verið í miklum og stöðugum vexti undanfarin ár. Á síðasta ári var velta í greininni um 156 milljarðar og jókst um 34% frá árinu á undan.

AP sýningar, sem er í eigu AP almannatengsla ehf., sér um framkvæmd sýningarinnar í samvinnu við iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið, Reykjavíkurborg, Samtök iðnaðarins, Landsbanka Íslands og Ístak. Nánari upplýsingar um Verk og vit 2006: verkogvit.is Nánari upplýsingar um AP almannatengsl: www.appr.is

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta