Mikil fækkun sveitarfélaga á kjörtímabilinu
Á þessu kjörtímabili sveitarstjórna hefur sveitarfélögum fækkað umtalsvert. Við upphaf kjörtímabilsins voru sveitarfélögin 105, en nú liggur fyrir að sveitarfélögin verða ekki fleiri en 80 í kjölfar sveitarstjórnarkosninganna þann 27. maí.
Í vor verður kosið til nýrrar sveitarstjórnar í níu sameinuðum sveitarfélögum. Víðast hvar verða einnig greidd atkvæði um nafn á þessi nýju sveitarfélög.
Þær sameiningar sem taka gildi að afloknum sveitarstjórnarkosningum eru eftirfarandi:
Á Vesturlandi
- Sameining Skilmannahrepps, Hvalfjarðarstrandarhrepps, Innri-Akraneshrepps og Leirár- og Melahrepps.
- Sameining Borgarbyggðar, Borgarfjarðarsveitar, Hvítársíðuhrepps og Kolbeinsstaðahrepps.
- Sameining Dalabyggðar og Saurbæjarhrepps. Nafn hins sameinaða sveitarfélags verður Dalabyggð.
Á Vestfjörðum
- Sameining Broddaneshrepps og Hólmavíkurhrepps.
Á Norðurlandi vestra
- Sameining Áshrepps og Húnavatnshrepps. Nafn hins sameinaða sveitarfélags verður Húnavatnshreppur.
Á Norðurlandi eystra
- Sameining Siglufjarðarkaupstaðar og Ólafsfjarðarbæjar.
- Sameining Húsavíkurbæjar, Kelduneshrepps, Öxarfjarðarhrepps og Raufarhafnarhrepps.
Á Austurlandi
- Sameining Mjóafjarðarhrepps, Fjarðabyggðar, Austurbyggðar og Fáskrúðsfjarðarhrepps. Nafn hins sameinaða sveitarfélags verður Fjarðabyggð.
Á Suðurlandi
- Sameining Gaulverjabæjarhrepps, Hraungerðishrepps og Villingaholtshrepps.
Enn getur sveitarfélögunum fækkað því þann 8. apríl fara fram kosningar um sameiningu Þórshafnarhrepps og Skeggjastaðahrepps.