Norrænir umhverfisráðherrar bregðast við umhverfisógnum á Norðurslóðum
Umhverfisráðherrar Norðurlandanna samþykktu í gær áætlun vegna loftslagsbreytinga og mengunar á Norðurslóðum á fundi sínum í Kaupmannahöfn. Áætlunin tekur mið af því að óvíða er hlýnun meiri í heiminum en á norðurheimskautssvæðinu og að þangað berast þungmálmar og þrávirk lífræn efni langt að, svo að lífríki svæðisins og heilsu íbúa þess kann að stafa ógn af. Taka á mið af áætluninni í verkefnum á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar, en einnig í alþjóðlegu starfi, s.s. á vettvangi Norðurskautsráðsins.
Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra sagði á fundinum frá fyrirhugaðri vísindaráðstefnu á Íslandi í haust um tengsl loftslagsbreytinga og hafstrauma í norðanverðu Atlantshafi. Áætlað er að ráðstefnan verði haldin 11.-12. september.
Á fundinum var einnig samþykkt að Norðurlöndin myndu vinna sameiginlega að því að hrinda í framkvæmd alþjóðlegri framkvæmdaáætlun um aðgerðir til að draga úr mengun af völdum hættulegra efna, sem samþykkt var á fundi í Dubai í febrúar. Einnig var samþykkt að á norrænum vettvangi verði unnið að því að undirbúa alþjóðlegt samkomulag um aðgerðir gegn mengun af völdum kvikasilfurs, en hún er vaxandi vandamál m.a. á Norðurheimskautssvæðinu.
Á fundinum var kynntur nýr bæklingur, þar sem sýnd eru dæmi um framlag Norðurlandanna á sviði umhverfisvænnar tækni. M.a. er þar umfjöllun um íslenska fyrirtækið Marorku og Maren-kerfi þess, sem vinnur að sparnaði á eldsneyti og um leið gegn mengun og losun gróðurhúsalofttegunda. Þessum bæklingi verður dreift víða, m.a. á vettvangi ESB og Umhverfisstofnunar S.þ. (UNEP).
Rætt var um verkefni í tengslum við nýja áætlun ESB um verndun umhverfis hafsins og um slæmt ástand Eystrasaltsins og hugsanlegar aðgerðir til að bæta það.
Í tengslum við fundinn var haldinn fyrsti sameiginlegi fundur umhverfisráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna þriggja. Þar var helsta umræðuefnið ástand Eystrasaltsins og hvernig væri hægt að sporna gegn mengun og bregðast betur við olíuslysum. Mikilli aukningu er spáð í olíuflutningum um Eystrasalt og fjölþjóðlegt mat á umhverfisáhrifum vegna gasleiðslu frá Rússlandi til Þýskalands er í bígerð.
Fréttatilkynning nr. 5/2006
Umhverfisráðuneytið