Veiðar á úthafskarfa 2006
Veiðar á úthafskarfa 2006
Ráðherra hefur í dag gefið út reglugerð um veiðar á úthafskarfastofnum 2006. Samkvæmt reglugerð þessari er íslenskum skipum heimilt að veiða samtals 28.610 lestir af úthafskarfa á þessu ári og skiptist þetta magn á tvö svæði. Heimilt er að veiða 23.406 lestir á deilisvæði sem að hluta liggur innan lögsögunnar en sá karfi er veiddur á fyrri helmingi ársins, en 5.204 á deilisvæði sem liggur alfarið utan lögsögunnar en sá karfi er veiddur á seinni helmingi ársins. Um er að ræða 17% samdrátt í veiðiheimildum frá árinu 2005.
Á ársfundi Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC), sem fram fór í London í nóvember sl., náðist samkomulag um stjórnunarráðstafanir varðandi úthafskarfa. Öll aðildarríki NEAFC að Rússum undanskildum hafa samþykkt ráðstafanirnar. Þótt Ísland hafi viljað ganga lengra en samkomulag varð um felur það í sér að komið er lengra til móts við ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) en verið hefur undanfarin ár.
Viðmiðunarheildaraflamark NEAFC var lækkað úr 75.200 lestum í 62.416. Þetta er lækkun sem nemur 17% og munu aðildarríkin draga úr sínum veiðum sem því nemur.
Í ráðgjöf ICES felst að haga eigi stjórn veiðanna með þeim hætti að tekið sé tillit til þess að um tvö aðskilin veiðisvæði sé að ræða, annað innan og við lögsögumörk Íslands og hitt sunnar og vestar (oft kallað "neðri karfi" og "efri karfi"). Eins og undanfarin ár lagði ICES til að veiðum verði stjórnað þannig að ekki væri hætta á að karfi yrði ofveiddur á öðru hvoru veiðisvæðinu, en stjórnun NEAFC hefur hingað til farið með karfann sem eina stjórnunareiningu. Ísland hefur lagt á það ríka áherslu að stjórnun veiðanna sé breytt til að taka tillit til þessa og grundvallist á tveimur aðskildum stjórnunareiningum eins og Ísland hefur stjórnað sínum veiðum einhliða á undanförnum árum.
Samkvæmt hinum nýju stjórnunarráðstöfunum NEAFC skulu aðildarríkin skipta veiðiheimildum sínum þannig að of stór hluti þeirra sé ekki veiddur fyrir á fyrri hluta ársins Markmið tímaskiptingarinnar er að draga úr hættu á ofveiði úr neðri stofninum, en eins og fyrr segir eru veiðar úr honum stundaðar á fyrri hluta ársins.
Með samþykkt þessara stjórnunarráðstafana fékkst í fyrsta skipti viðurkennt á vettvangi NEAFC að stjórnunarráðstafanir þurfi að taka mið af því að um tvö aðskilin veiðisvæði sé að ræða. Ísland vildi ganga lengra, bæði hvað varðar lækkun á heildaraflamarki sem og aðskilnað milli veiðisvæða, en sætti sig við þessa niðurstöðu, fyrir árið 2006, sem málamiðlun.
Þar sem stjórn veiða Íslendinga hefur undanfarin ár tekið tillit til þess að um tvö aðskilin veiðisvæði er að ræða er ekki þörf á breytingu varðandi fyrirkomulag veiða íslenskra skipa, en karfavertíðin sem senn hefst verður sú fyrsta þar sem önnur NEAFC ríki hafa einnig skuldbundið sig til þess að haga sínum veiðum þannig að tekið sé tillit til þessa.
Sjávarútvegsráðuneytinu, 17. mars 2006