Hoppa yfir valmynd
21. mars 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Hækkun lágmarksveltuákvæðis virðisaukaskattslaga

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins – þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Fjármálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt þar sem m.a. er lagt til að lágmark virðisaukaskattsskyldrar sölu á ársgrundvelli verði hækkað úr 220.000 kr. í 500.000 kr.

Samkvæmt núgildandi 3. tölul. 4. gr. laga um virðisaukaskatt eru þeir sem selja skattskylda vöru eða þjónustu fyrir minna en 220.000 kr. á ári undanþegnir skattskyldu. Það er frumforsenda fyrir skráningu á virðisaukaskattskrá að starfsemi sé í atvinnuskyni.

Upphaflegur tilgangur þessa ákvæðis var að undanþiggja mjög lítil fyrirtæki eða starfsemi sem eingöngu er rekin í hjáverkum eða stöku sinnum og helgast það fyrst og fremst af hagkvæmnisástæðum. Einn meginþátturinn sem horft er til við mat á því hvort um atvinnustarfsemi er að ræða er umfang starfsemi. Umfangslítil starfsemi bendir til þess að ekki sé um atvinnustarfsemi að ræða. Segja má að veltumarkið (220.000 kr.) feli í sér vísbendingu um það hvað umfangið þurfi að vera mikið til að um atvinnustarfsemi sé að ræða. Út frá því sjónarmiði má segja að ákvörðun veltumarks sé öðrum þræði skattatæknileg, þ.e. markar hugtakið atvinnustarfsemi í skattalegu tilliti.

Núgildandi lágmarksveltuákvæði hefur staðið óbreytt í lögunum frá 1. júlí 1997, þegar fjárhæðin var lögbundin og afnumin vísitölubundin hækkun sem gilti fyrir þann tíma. Ef núgildandi veltumark er fært upp á verðlag dagsins í dag, miðað við vísitölu neysluverðs frá 1. júlí 1997, er það 300.622 kr.

Samsvarandi skilyrði um lágmarksveltu eru sem hér segir á Norðurlöndunum (í íslenskum krónum): Danmörk 495.000 kr., Finnland 625.000 kr. og Noregur 440.000 kr. Engin slík lágmarksskilyrði eru í Svíþjóð. Er því íslenska veltumarkið töluvert lægra en hjá nágrannaþjóðum okkar, að Svíþjóð undanskilinni.

Með hliðsjón af hagkvæmnisástæðum, viðmiðun laganna um hvað teljist atvinnustarfsemi og fyrirkomulagi í nágrannalöndum Íslands er því með frumvarpi því sem fjármálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi lagt til að lágmarksveltuákvæði laganna um virðisaukaskatt verði hækkað úr 220.000 kr. í 500.000 kr.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta