Hoppa yfir valmynd
23. mars 2006 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp Sigríðar Önnu Þórðardóttur á fundi Samtaka ferðaþjónustunnar

Fundurinn Auðlindin Ísland,
upplýsinga- og umræðufundur um samspil ferðaþjónustu og virkjana,
haldinn 23. mars 2006 á Grand Hóteli í Reykjavík.

Ágætu fundargestir!

Það er vel til fundið hjá Samtökum ferðaþjónustunnar að taka til umræðu ferðaþjónustu, virkjanir og samspilið þarna á milli. Og það er skiljanlegt að ferðaþjónustan velti hagsmunum greinarinnar fyrir sér og skoði hvernig eða hvort hagsmunir þessara greina atvinnulífsins fari saman eða stangist á við aðra hagsmuni. Mér er það ánægja að koma með dálítið innlegg í þessa umræðu með því að ræða samspil nýtingar og náttúruverndar.

Ég er sjálfsagt ekki ein um það hérna inni að hafa heyrt fólk spyrja um eða velta vöngum yfir hvort einhver sé nýtingarsinni eða verndarsinni. Þetta eru tiltölulega algengar vangaveltur, en ég tel að þær séu almennt byggðar á misskilningi og eigi í fæstum tilvikum við. Vangaveltur um það hvort fólk sé verndar- eða nýtingarsinnar felur í sér viðhorf sem ég er ósammála og felur það í raun í sér að þetta tvennt séu andstæður, en það tel ég einfaldlega rangt. Ég tel þess vegna mun nær að tala um samspil eins og gert er í dagskrá þessa fundar, en hitt held ég að sé of algengt, að málum sé stillt upp á þann veg að annaðhvort vilji menn vernda eða nýta.  Íslendingar eru nátengdir náttúrunni.  Þegar öllu er á botninn hvolft erum við öll náttúruverndarsinnar og viljum fara vel með landið okkar.

Hér á landi hefur nýting náttúruauðlinda og náttúruvernd farið ágætlega saman og ég tel að svo verði áfram. Ein helsta náttúruauðlind Íslendinga er fiskurinn í hafinu umhverfis landið okkar. Við höfum nýtt þá auðlind með sjálfbærum hætti og gætt þess betur en margar aðrar þjóðir að vernda hana um leið og við njótum afrakstursins af henni og gætt þess að ganga ekki á auðlindina svo að hún verði einnig til afnota fyrir komandi kynslóðir.

Aðrar helstu náttúruauðlindir okkar eru fólgnar í náttúru landsins, fallvötnum og jarðhita. Nýting þeirra hefur þess vegna að ýmsu leyti annars konar áhrif en nýting fiskistofnanna og umgengnin um þær er einnig vandasöm. Við sjáum stundum afleiðingarnar af nýtingunni og líklega er það þess vegna sem sumir ganga út frá því að nýtingin fari ekki saman við náttúruverndina. Það á hins vegar ekkert síður við um auðlindir landsins en auðlindir sjávarins að við eigum að umgangast þær af varkárni og virðingu og gæta þess eftir megni að nýta þær á sjálfbæran hátt. Það er óhætt að segja að við Íslendingar erum um margt í mjög öfundsverðri stöðu. Hér er hlutfall endurnýjanlegrar orku það hæsta sem þekkist, mengun er tiltölulega lítil og í landinu er að finna einstaka náttúru og víðerni sem nútímamaðurinn sækir í vaxandi mæli til afþreyingar.

Hér á þessum fundi hefur verið rætt um rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma, en sú áætlun er einmitt mjög gott dæmi um það hvernig hægt er að skoða þessi mál heildstætt og taka tillit til ólíkra sjónarmiða og ólíkra hagsmuna.

Í fyrsta áfanga rammaáætlunar var lagt mat á 35 virkjanakosti, einkum stórar vatnsaflsvirkjanir og jarðhitavirkjanir nærri byggð. Fyrsta áfanga lauk haustið 2003 og nú stendur yfir vinna við annan áfanga. Gert er ráð fyrir áfangaskýrslu annars áfanga snemma á næsta ári og lokaskýrslu tveimur árum síðar. Í öðrum áfanga er gert ráð fyrir að skoða virkjunarkosti sem ekki voru skoðaðir í þeim fyrsta auk þess að skoða betur ýmsa þá kosti sem metnir voru í fyrsta áfanga. Þá er í öðrum áfanga lögð meiri áhersla á háhitasvæðin en þekking á þeim hefur verið minni en á svæðum sem koma til álita við nýtingu vatnsafls. Með þeim auknu rannsóknum sem nú fara fram í þessari vinnu fæst fyllri og heilsteyptari mynd af landinu og náttúru- eða orkuauðlindum þess.

Það er alls ekki svo að vinnan við rammaáætlun nýtist aðeins fyrir mögulegar virkjanaframkvæmdir, heldur fara fram mjög umfangsmiklar náttúrufarsrannsóknir í tengslum við hana og þekking okkar á náttúru landsins hefur stóraukist vegna rammaáætlunarinnar. Rammaáætlunin snýst öðrum þræði um umhverfið og um náttúruvernd. Hún auðveldar okkur að taka afstöðu til virkjanakosta með vernd umhverfisins í huga.

Náttúrufarsrannsóknir vegna rammaáætlunar nýtast ekki aðeins í tengslum við mat á áhrifum á náttúruna vegna hugsanlegra virkjana heldur einnig beint vegna vinnu við náttúruvernd.  Náttúruverndaráætlun var  samþykkt á Alþingi árið 2004 sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi og þessar rannsóknir koma að góðu gagni við endurskoðun hennar þegar þar að kemur. Náttúruverndaráætlunin er gott dæmi um það hvernig unnið er markvisst að náttúruvernd með friðun ákveðinna svæða um leið og skoðaðir eru kostir til frekari nýtingar jarðvarma og vatnsafls á öðrum svæðum.

Samkvæmt náttúruverndaráætluninni er unnið að friðlýsingu fjórtán svæða á landinu til að stuðla að vernd íslenskrar náttúru og framkvæmd alþjóðlegra samninga um náttúruvernd hér á landi. Í áætluninni er lögð áhersla á búsvæði fugla, en einnig á plöntur, gróðurfar og jarðfræði. Með náttúruverndaráætluninni var brotið blað í sögu náttúruverndar hér á landi og þó að oft hafi verið unnið gott starf er óhætt að fullyrða að með henni er lagður grunnur að markvissari náttúruvernd en áður hefur tíðkast. Náttúruverndaráætlunin er fyrsta skrefið í því að koma á skipulögðu neti verndarsvæða sem byggist á vísindalegum gagnagrunnum um náttúru landsins og faglegu mati á verndargildi.

Fyrsta svæðið af þeim sem nefnd eru í náttúruverndaráætluninni hefur þegar verið friðlýst, en það eru Guðlaugstungur, Álfgeirstungur og Svörtutungur, sem liggja norðan Hofsjökuls og Langjökuls. Ég undirritaði friðlýsingu þessa svæðis í lok síðasta árs og það er raunar tvöfalt stærra, um 400 km2, en gert var ráð fyrir í náttúruverndaráætluninni. Svæðið er merkilegt vegna víðfeðms og gróskumikils votlendis og vegna þess að þar er eitt stærsta og fjölbreyttasta rústasvæði landsins. Þá er svæðið mikilvægasta beitar- og varpsvæði heiðagæsarinnar í heiminum.

Ágætu áheyrendur!

Ég vek athygli á því að þessi mikla og merkilega vinna við náttúruvernd fer fram á sama tíma og miklar virkjanaframkvæmdir standa yfir, sem staðfestir það sem ég hef sagt um að vernd náttúrunnar og nýting hennar eru ekki andstæður heldur þvert á móti samspil sem reynir á fagmennsku og þekkingu okkar á náttúrunni til að unnt sé að vinna að þessum málum í fullri sátt.

En með því sem hér hefur verið nefnt er alls ekki upp talið það sem unnið er að við náttúruvernd því af mörgu er að taka. Ég vil hér til dæmis nefna það að fyrir skömmu undirritaði ég nýja friðlýsingu fyrir friðlandið Surtsey sem fól í sér umtalsverða stækkun friðlandsins og tekur nú til eldstöðvarinnar allrar bæði neðan og ofan sjávar ásamt hafsvæðinu umhverfis hana. Stækkunin var liður í þeim áformum ríkisstjórnarinnar að sækjast eftir því að Surtsey verði samþykkt á heimsminjaskrá UNESCO. Surtsey er einstök í veröldinni og Íslendingar hafa alla tíð sýnt mikla framsýni með því að friða eyjuna og halda henni þannig nánast sem tilraunastofu um landnám plantna og dýra, framvindu lífríkis og mótun jarðmyndana. Það að halda Surtsey sem nokkurs konar tilraunastofu er reyndar að mínu viti ekki aðeins æskilegt vegna verndunarsjónarmiða heldur tel ég einnig að verndun eyjunnar sé besta nýting hennar, sem staðfestir enn það sem ég hef sagt um samspil verndunar og nýtingar.

Landið getur hins vegar ekki í heild sinni verið tilraunastofa. Við þurfum að nýta landið með ýmsum öðrum hætti og án þess að nýta auðlindir á borð við jarðvarma og vatnsafl er vandséð að við gætum búið hér við ásættanleg kjör. Með þessu er ég ekki að vísa til þess að okkur sé nauðsyn að fá hingað frekari stóriðju. Ég tel að sá möguleiki í atvinnuuppbyggingu sem felst í stóriðjunni sé aðeins einn af mörgum og þegar kemur að atvinnumálum þurfum við ekki – og höfum ekki – einblínt á stóriðju. Við komumst hins vegar ekki hjá því að nýta þessar auðlindir til þess að hita upp húsin okkar og framleiða rafmagn til ýmissa þarfa, bæði á heimilunum og í atvinnulífinu. Ef við þyrftum að flytja inn alla þá orku sem við notum er hætt við að lífskjör hér væru allt önnur en við þekkjum í dag.

Friðuð svæði þurfa heldur ekki öll að vera eins og tilraunastofan Surtsey. Með umfangsmikilli verndun Surtseyjar erum við að vernda nýtt og algerlega ósnortið land og þess vegna viljum við enga umferð þar nema þá sem nauðsynleg er vegna vísindastarfa. Önnur friðlýst svæði þurfa ekki á svo mikilli verndun að halda og þar leyfum við umferð ef farið er um með gát og án þess að skaða náttúruna.

Í þessu sambandi vil ég nefna verkefni sem nú er unnið að í umhverfisráðuneytinu, í samvinnu við heimamenn og aðra hagsmunaaðila, en það er stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs. Ég vonast til að geta í haust lagt fram frumvarp um stofnun þjóðgarðsins sem ætlunin er að nái meðal annars yfir vatnasvæði Jökulsár á Fjöllum og stórt svæði fyrir norðan Vatnajökul, auk þjóðgarðsins í Skaftafelli. Þetta verður því gríðarlega stór þjóðgarður sem nær nánast þvert yfir landið.

Innan hans er gert ráð fyrir að hægt verði að hafa flest hefðbundin not af landinu séu þau sjálfbær og þannig í sátt við náttúruna, til dæmis landbúnað og veiðar. Ég hef fulla trú á því að þessi þjóðgarður verði ekki aðeins einn mikilvægasti áfangi í náttúruvernd hér á landi heldur verði hann einnig til þess að auka og bæta nýtingu landsins. Vatnajökulsþjóðgarður verður þess vegna enn eitt dæmið um það hversu vel náttúruvernd og nýting geta farið saman ef rétt er á málum haldið. Þjóðgarðurinn verður raunar sérstaklega mikilvægur fyrir þá nýtingu sem fyrirtæki í ferðaþjónustu hafa af landinu því að búist er við að fjöldi ferðamanna vilji leggja leið sína í þennan risavaxna þjóðgarð. Þannig skapast með þjóðgarðinum mikil tækifæri fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu.

Í skýrslu um stofnun þjóðgarðs norðan Vatnajökuls er til dæmis vitnað til könnunar Rögnvalds Guðmundssonar sem telur að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs geti orðið til þess að ferðamönnum fjölgi um 5% og að gjaldeyristekjur aukist um 4 milljarða króna. Á áhrifasvæði þjóðgarðsins yrðu útgjöld ferðamanna nær 700 milljónum króna hærri en ella samkvæmt sömu könnun.

Eins og kunnugt er fylgir ferðamönnum þó ákveðið álag á náttúruna og á ferðamönnum og ferðaþjónustufyrirtækjum hvílir því sú ábyrgð að ganga vel um náttúruna og skilja við náttúruperlurnar okkar eins og að þeim var komið. Með þessu er unnt að nýta náttúruna fyrir ferðaþjónustuna en njóta hennar einnig um ókomin ár.

Góðir fundarmenn!

Eins og ég hef lagt áherslu á tel ég ekki aðeins mögulegt heldur einnig nauðsynlegt að við gerum hvort tveggja, nýtum og verndum náttúruna. Með öðrum orðum að við nýtum hana og njótum hennar um leið. Ég tel að þau átök sem stundum hafa verið á milli þeirra sem telja sig talsmenn nýtingar og hinna sem telja sig talsmenn verndunar séu alveg ónauðsynleg. Ég trúi því varla að nokkur maður líti svo á að eingöngu eigi að líta til annars sjónarmiðsins en ekkert til hins og ég held að í raun sé ekki jafn langt á milli talsmanna þessara tveggja sjónarmiða og sumir vilja vera láta. Að minnsta kosti ekki þegar staldrað er við og horft til þess hve nátengd þessi sjónarmið eru í raun.

Þegar gáð er að því hve mikið þekking okkar á náttúrunni hefur aukist vegna vinnu við rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Þegar horft er til þess hve stór skref hafa verið stigin samhliða í náttúruvernd og nýtingu orkulinda landsins. Og þegar litið er til þess að nú er unnið að Vatnajökulsþjóðgarði sem felur meðal annars í sér friðun Jökulsár á Fjöllum og tryggir að risastór víðerni haldast ósnortin, þá sjáum við að vernd náttúrunnar og nýting hennar fara vel saman.

Staðreyndin er sú að við Íslendingar höfum í meginatriðum gengið vel um náttúru landsins um leið og við höfum nýtt orkuauðlindir þess til að létta okkur lífið í harðbýlu landi. Árangur okkar er ótvírætt til marks um að það fer vel saman að nýta náttúruna og njóta hennar. Okkur er trúað til þess að nýta landið, gögn þess og gæði og skila því til komandi kynslóða í ekki verra ástandi og helst betra en þegar okkar kynslóð tók við.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta