Hoppa yfir valmynd
24. mars 2006 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra fundar með utanríkisráðherra Rússlands

Geir H. Haarde og Sergei V. Lavrov utanríkisráðherra Rússlands á blaðamannafundi í dag
Geir H. Haarde ásamt Sergei V. Lavrov utanríkisráðherra Rússlands á blaðamannafundi í dag

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu

Nr. 020

Geir H. Haarde, utanríkisráðherra, er í vinnuheimsókn í Moskvu í boði Sergei V. Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands. Ráðherrarnir funduðu í morgun og bauð rússneski utanríkisráðherrann að því loknu til hádegisverðar.

Á fundi sínum fjölluðu ráðherrarnir um tvíhliða samskipti ríkjanna, svæðisbunda samvinnu og alþjóðamál. Ráðherrarnir ræddu samskipti ríkjanna á sviði viðskipta- og efnahagsmála, fiskveiða, flugsamgangna, menningarmála, orkumála og samvinnu Íslands við nokkur héruð í Rússlandi. Ráðherrarnir voru sammála um að kannaðir skyldu möguleikar þess að gera nýjan menningarsamning milli ríkjanna en núverandi samningur er frá 1961, samning um samvinnu á sviði orkumála og nýjan vegabréfasamning sem myndi grundvallast á nýgerðum samningi Rússlands og Evrópusambandsins (ESB).

Utanríkisráðherra gerði einnig starfsbróður sínum grein fyrir stöðunni í varnarviðræðum Íslands og Bandaríkjanna.

Hvað svæðisbundna samvinnu varðar ræddu ráðherrarnir um Eystrasaltsráðið, en Ísland situr þar nú í forsæti, og leiðtogafund þess sem haldinn verður í Reykjavík í júní nk. og um Norðurskautsráðið en þar situr Rússland nú í forsæti. Auk þess fjölluðu ráðherrarnir um málefni Barentsráðsins og norðlæga vídd ESB en að henni standa Rússar, Norðmenn og Íslendingar auk ESB. Loks ræddu þeir samskipti Rússlands og Atlantshafsbandalagsins en bandalagið hefur um tveggja ára skeið haft opna skrifstofu í Moskvu.

Ráðherrarnir skiptust á skoðunum um málefni Írans og ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs og baráttuna gegn alþjóðlegum hryðjuverkasamtökum. Einnig ræddu þeir málefni Sameinuðu þjóðanna og framboð Íslands til öryggisráðsins.

Áður en fundur utanríkisráðherranna hófst í morgun lagði Geir H. Haarde, utanríkisráðherra, blómsveig á gröf óþekkta hermannsins í Moskvu.

Utanríkisráðherra heimsótti einnig í dag skrifstofu Actavis í Moskvu og kynnti sér starfsemi hennar á Rússlandsmarkaði.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta