Meira kvartað til landlæknisembættisins
Almenningur kvartar meira nú vegna heilbrigðisþjónustu sem veitt er en áður að því er fram kemur hjá embættinu. Landlæknisembættið hefur birt upplýsingar um kvartanir og kærur og ber fjölda þeirra fyrir árið 2005 saman við árið á undan. Þá kemur í ljós að skráðar kærur og kvartanir sem voru 244 árið 2004 eru komnar í 290 á liðnu ári. Um er að ræða mál, misjafnlega umfangsmikil og misjafnlega alvarleg, allt frá kvörtunum yfir hnökrum í samskiptum við heilbrigðisstarfsfólk og yfir í alvarleg mál vegna mistaka. Kvörtun eða kæra er skráð sem slík ef hún leiðir til athugunar af hálfu embættisins. Alla jafna er erindi ekki skráð sé leyst úr umkvörtun með einföldum hætti í síma eða með leiðbeiningum til viðkomandi um hvert skuli snúa sér varðandi álitamál.