Hoppa yfir valmynd
30. mars 2006 Matvælaráðuneytið

Höfðingleg gjöf

 

Höfðingleg gjöf

Ísfirðingarnir Guðmundur Guðmundsson og Jón Páll Halldórsson komu færandi hendi í sjávarútvegsráðuneytið í dag og afhentu Einar K. Guðfinnssyni sjávarútvegsráðherra forláta mynd af fyrsta íslenska vélbátnum, Stanley frá Ísafirði.

Guðmundur er fyrrverandi útgerðarmaður og framkvæmdastjóri útgerðarfélagsins Hrannar hf. sem gerði út aflaskipið Guðbjörgina. Jón Páll er fyrrverandi framkvæmdastjóri Norðurtangans á Ísafirði. Myndin var í eigu Guðmundar og prýddi skrifstofu Hrannar hf. um árabil.

Árni Gíslason og Sophus J. Nielsen höfðu á sínum tíma forgöngu um að vél yrði sett í Stanley og 25. nóvember 1902 var bátnum siglt fyrir eigin vélarafli um Pollinn á Ísafirði. Fjórum dögum eftir reynslusiglinguna fór Árni í fyrstu veiðiferðina á íslenskum vélbáti. Þetta markaði upphafið að mestu framfarasókn í atvinnusögu þjóðarinnar.

Í hugum flestra er vélvæðing í sjávarútvegi og tilkoma togaranna í upphafi síðustu aldar tákn iðnbyltingar á Íslandi. Með henni varð verðmætaaukning í þjóðarbúskapnum slík, að þær breytingar sem urðu á samfélaginu í kjölfarið, á undraskömmum tíma, eiga sér vart hliðstæður meðal þjóða. Þegar litið er til atvinnusögu okkar þá hlýtur upphaf vélvæðingar þýðingarmesta atvinnuvegarins að rísa hæst.

Mikil saga býr í myndinni af Stanley. Einar K. Guðfinnsson veitti gjöfinni viðtöku og þakkaði fyrir þann hlýhug sem býr að baki gjöfinni.

 Isfirdingar_far_EKG_mynd_af_Stanley_mars_06

                                 

 

Sjávarútvegsráðuneytinu 30. mars 2006

 

 

 

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum