Ávarp umhverfisráðherra á þingi LSS
11. þing Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna
í húsi BSRB 31. mars 2006 kl. 11:00
Ágætu slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn - og aðrir gestir.
Það er ánægjulegt að vera með ykkur á 11. þingi Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningsmanna.
Óþarft er að tíunda hér mikilvægi starfa ykkar svo augljóst er það og óhætt að segja að allir landsmenn treysti á að störf ykkar gangi vel. Þörfin fyrir aðstoð ykkar gerir sjaldnast boð á undan sér og þess vegna er svo mikilvægt að þið séuð ávallt viðbúnir þegar kallið kemur. Þá skiptir góð þjálfun og öruggur tækjabúnaður sköpum.
Áður en ég settist á Alþingi 1991 bjó ég lengi á Snæfellsnesi í Grundarfirði. Þar sat ég í sveitarstjórn í 12 ár frá 1978 – 1990, lengst af sem oddviti Grundfirðinga. Árið 1979 stórskemmdist ný skólabygging við grunnskólann í eldi, sem var gríðarlegt áfall fyrir byggðarlagið. Í kjölfarið voru brunavarnir teknar til gagngerrar endurskoðunar og ráðist í að efla slökkviliðið með markvissari þjálfun og betri tækjabúnaði. Ég þekki því af eigin raun sem sveitarstjórnarmaður hvé gríðarlega mikilvægt það er að þessum málum sé sinnt af metnaði og á þann hátt að við getum treyst því að öryggi okkar sé tryggt á besta mögulegan hátt.
Fyrst vil ég nefna að nú hefur verið ákveðið í umhverfisráðuneytinu að veita 100 milljónum króna til að efla búnað slökkviliða um land allt til æfinga- og slökkvistarfa og mengunarvarna. Um er að ræða eitt mesta átak í tækjavæðingu slökkviliðanna frá upphafi.
Þessi aukni og endurbætti tækjakostur eflir hæfni og getu slökkviliðanna til að bregðast við atburðum og ekki er síður mikilvægt að möguleikar slökkviliðsmanna til þjálfunar aukast umtalsvert. Bættur tækjakostur, aukin þjálfun slökkviliðsmanna ásamt samræmingu á búnaði milli umdæma eykur líkur á giftusamlegum viðbrögðum og hefur þannig bein áhrif á öryggi fólks.
Í ljósi þess að vel hefur verið vandað til undirbúnings málsins og víðtækt samráð verið milli hagsmunaaðila eru allar líkur til þess að átakið efli einnig samstarf til lengri tíma litið öllum til hagsbóta.
Í öðru lagi tel ég ástæðu að geta þess að lokið er vinnu við fyrstu samræmdu kennslugögnin fyrir slökkviliðsmenn. Hér er um að ræða kennslubók sem þegar er byrjað að nota við Brunamálaskólann og er einnig aðgengileg á netinu.
Samræmd og endurskoðuð kennslugögn eru mikilvæg sérstaklega þegar um er að ræða menntun þeirra sem fást við vandasöm og hættuleg störf þar sem mistök geta verið dýrkeypt. Ekki síst er þetta áríðandi þegar haft er í huga að nýliðun í röðum slökkviliðsmanna er mjög mikil.
Mér er kunnugt um að skipulagning og samantekt kennslugagnanna kostaði bæði vit og strit og ég vil þakka þeim sem stóðu að því verki fyrir vel unnið starf í þágu okkar allra.
Í þriðja lagi vil ég benda á þá almennu jákvæðu þróun sem nú stendur yfir við sameiningu sveitarfélaga, stækkun eldvarnareftirlitssvæða og nánara samstarf slökkviliðanna. Allt þetta eykur fagmennsku og getu aðila til að sinna störfum sínum sem best með öryggi íbúanna að leiðarljósi.
Í fjórða lagi get ég ekki látið hjá líða að minnast á þær breytingar sem fyrirhugaðar eru á starfsemi Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli enda hafa þær áhrif á hlutverk og starfsumhverfi margra ykkar hér á suðvesturhorni landsins. Augljóst er að umfang og ábyrgð íslenskra yfirvalda á sviði öryggismála á svæðinu eykst verulega þegar á hausti komandi. Þetta þýðir m.a. að starfsemi Slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli verður með öðrum hætti en verið hefur og augljóst að á næstu mánuðum verður að fara fram nákvæm skoðun á þörfum okkar og möguleikum hvað varðar framtíðarskipan slökkviliðs og öryggismála á svæðinu enda um mikið hagsmunamál fyrir landið allt að ræða.
Ágætu þinggestir
Eins og ykkur er kunnugt hefur um nokkuð skeið staðið yfir endurskoðun skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 á vegum tveggja nefnda sem starfa á vegum umhverfisráðuneytisins. Önnur fjallar um skipulagsþáttinn og hin um byggingarþáttinn og hefur landssambandið fengið til umsagnar drög að frumvarpi til laga um mannvirki sem byggingarlaganefndin sendi völdum aðilum í byrjun febrúar sl. Nú hillir undir skil hjá nefndunum og fer málið til frekari skoðunar í umhverfisráðuneytinu og er stefnt að framlagningu tveggja frumvarpa í upphafi næsta þings.
Sá þáttur sem snýr að mannvirkjum snertir ykkar starfssvið sérstaklega. Ég ætla ekki að fjölyrða um efnisatriði í tillögum nefndarinnar en þegar hefur verið ákveðið að leggja til að sett verði á fót Byggingarstofnun sem m.a. er ætlað að taka yfir hlutverk Brunamálastofnunar. Það er því ljóst að breyta þarf lögum um brunavarnir í tengslum við frumvarp um mannvirki.
Að lokum vænti ég þess að þing ykkar verði í senn árangursríkt og ánægjulegt og óska ykkur öllum velfarnaðar í ábyrgðarmiklum störfum.