Almannaþjónusta, samkeppnisrekstur og aðskilið bókhald
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins – þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Fjármálaráðherra hefur gefið út reglugerð um aðskilið bókhald hjá fyrirtækjum (nr. 214/2006) sem veitt eru sérstök réttindi eða einkaréttur, eða falið er að veita þjónustu er hefur almenna efnahagslega þýðingu, skv. 59. gr. laga nr. 2/1993, um evrópska efnahagssvæðið, og stunda einnig aðra starfsemi.
Er reglugerðin sett til að ganga frá innleiðingu á svokallaðri gagnsæistilskipun Evrópusambandsins sem í grunninn er frá 1980. Kveður tilskipunin, með síðari breytingum, á um að fyrirtæki sem veitt eru sérstök réttindi, eða falið er að veita þjónustu er hefur almenna efnahagslega þýðingu í skilningi 59. gr. EES samningsins, og stunda jafnframt aðra starfsemi, skuli hafa aðskilið bókhald.
Tilgangur tilskipunarinnar er að koma í veg fyrir að opinbert fé sem viðkomandi aðili nýtur til að geta veitt þá þjónustu sem honum hefur verið falið að veita, fari í að niðurgreiða kostnað af annarri starfsemi sem aðilinn hefur með höndum og kann að vera í samkeppni á markaði. Þ.e.a.s. að viðkomandi aðili (hvort sem um er að ræða fyrirtæki eða stofnun) niðurgreiði ekki samkeppnisstarfsemi sína með opinberu fé. Verður því slíkur aðili að hafa mismunandi starfsemi sína skýrt aðgreinda í bókhaldinu til að koma í veg fyrir hugsanlega röskun á samkeppnismarkaði.
Ofangreind reglugerð er í fullu samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um fjárhagslegan aðskilnað í rekstri stofnana ríkisins. Árið 1997 samþykkti ríkisstjórnin slíka stefnu og fól hún það í sér að samkeppnisrekstur hjá ríkisstofnun skyldi vera fjárhagslega aðgreindur frá öðrum þáttum í rekstri stofnunarinnar. Í stefnunni komu jafnframt fram viðmiðanir um það hvenær beita ætti fjárhagslegum aðskilnaði.
Í kjölfar stefnumörkunarinnar gaf fjármálaráðuneytið síðan út leiðbeiningar til stofnana um fjárhagslega aðgreiningu. Leiðbeiningarnar eru enn í fullu gildi og hafa nýverið verið uppfærðar með tilliti til breytinga sem orðið hafa á bókhalds- og fjárhagskerfum ríkisins.