Hoppa yfir valmynd
4. apríl 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Frjáls för launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun frumvarp félagsmálaráðherra varðandi aðgengi ríkisborgara Eistlands, Lettlands, Litháen, Póllands, Slóvakíu, Slóveníu, Tékklands og Ungverjalands að íslenskum vinnumarkaði frá og með 1. maí nk. Enn fremur mun félagsmálaráðherra fela starfshópi, þar sem fulltrúar stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins munu eiga sæti, að fara yfir málefni útlendinga á íslenskum vinnumarkaði. Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili ráðherra áliti sínu og tillögum fyrir 1. nóvember 2006.

Stækkun Evrópska efnahagssvæðisins tók gildi 1. maí 2004 er tíu ríki gerðust aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið til viðbótar þeim sem fyrir voru, sbr. aðildarsamning EES. Gildistöku reglna samningsins um frjálsa för launafólks var frestað um tvö ár að því er varðar ríkisborgara Eistlands, Lettlands, Litháen, Póllands, Slóvakíu, Slóveníu, Tékklands og Ungverjalands og taka því formlega gildi 1. maí nk. Eldri aðildarríkjum samningsins, þ.m.t. Íslandi, er þó heimilt að taka einhliða ákvörðun um að fresta gildistöku þessara reglna allt fram til ársins 2009.

Með frumvarpi félagsmálaráðherra sem samþykkt var á fundi ríkisstjórnar í morgun er lagt til að ríkisborgurum framangreindra ríkja verði heimilt að koma hingað til lands í atvinnuleit og ráða sig til starfa hér á landi án sérstakra atvinnuleyfa. Svo virðist sem að nokkur hreyfanleiki sé meðal ríkisborgara þessara ríkja enda atvinnuleysi þar nokkuð. Þykir því ástæða vera til að atvinnurekendur tilkynni til Vinnumálastofnunar um ráðningu ríkisborgara frá þessum ríkjum þar sem fram koma nafn atvinnurekanda, kennitala og heimilisfang ásamt nafni útlendingsins, kennitölu og aðsetri hans hér á landi. Gert er ráð fyrir að ráðningasamningur fylgi tilkynningunni þar sem útlendingnum eru tryggð laun og önnur starfskjör samkvæmt íslenskum lögum og kjarasamningum. Miðað er við að tilkynningin berist stofnuninni innan tíu virkra daga frá ráðningu. Skal Vinnumálastofnun halda skrá yfir þá útlendinga sem koma frá framangreindum ríkjum til að starfa hér á landi. Þessi skráning kemur ekki í veg fyrir að umræddir ríkisborgarar þurfa að sækja um EES dvalarleyfi samkvæmt lögum um útlendinga.

Tilgangur þessarar tilkynningarskyldu atvinnurekanda er að fylgjast með framvindu mála svo unnt sé að hafa yfirsýn yfir þá er koma hingað til landsins meðal annars til að gæta þess að þeir njóti þeirra réttinda er gilda á innlendum vinnumarkaði. Jafnframt er mikilvægt að meta áhrif stækkunar Evrópska efnahagssvæðisins sem og að tryggja að unnt sé að bregðast í tíma við aðstæðum sem kunna að leiða til alvarlegrar röskunar á innlendum vinnumarkaði. Þá er litið til þess að slík skráning geri stjórnvöldum kleift að veita þessum útlendingum nauðsynlegar upplýsingar um lög og reglur er gilda um störf á innlendum vinnumarkaði.

Jafnframt er gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun verði veitt heimild til að leggja dagsektir á atvinnurekendur láti þeir hjá líða að skrá framangreinda ríkisborgara sem starfa hjá þeim. Þykir mikilvægt að stofnunin geti gripið til slíkra þvingunaraðgerða til að tryggja að umrædd tilkynningarskylda verði virt.

Þá er gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun afhendi stéttarfélagi í viðkomandi starfsgrein á svæði því sem umræddir ríkisborgarar starfar á afrit af ráðningarsamningi útlendingsins óski stéttarfélagið eftir því enda liggi fyrir grunur um brot á gildandi kjarasamningi. Þykir mikilvægt að viðhalda þeirri viðteknu venju að aðilar vinnumarkaðarins fylgist með að kjarasamningar séu haldnir hér á landi en ástæða þótti til að styrkja það tímabundið með þessum hætti enda gerir aðildarsamningur EES ráð fyrir sérstökum ráðstöfunum á aðlögunartímanum. Er hér einnig átt við að stéttarfélag geti óskað eftir ráðningarsamningum ótilgreindra útlendinga er starfa hjá tilteknum atvinnurekanda. Er þá miðað við að einhverjar vísbendingar séu fyrir hendi er gefa tilefni til gruns um að ákvæði kjarasamninga séu virt að vettugi hjá hlutaðeigandi atvinnurekanda.

Félagsmálaráðherra hefur haft samráð við Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins við samningu frumvarpsins. Var jafnframt samkomulag um að ráðherra feli starfshópi, þar sem fulltrúar stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins munu eiga sæti, að fara yfir málefni útlendinga á íslenskum vinnumarkaði.

Markmiðið með yfirferðinni er að fara yfir stöðu útlendinga sem starfa hér á landi, þar á meðal þeirra er starfa á grundvelli þjónusturéttarins samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, en mikilvægt er að fjölgun erlendra fyrirtækja og útlendinga raski ekki þeim reglum og samskiptahefðum sem hafa mótast á íslenskum vinnumarkaði. Þar á meðal að ráðningarsamningar starfsmanna beint við vinnuveitendur sína verði áfram ríkjandi ráðningarform hér á landi. Meðal annars verði skoðað hvort ástæða sé til að styrkja það vinnumarkaðskerfi sem fyrir er til að tryggja að erlent starfsfólk njóti þeirra réttinda og kjara sem gilda á íslenskum vinnumarkaði. Er starfshópnum ætlað að meta hvort ástæða sé til að setja ítarlegri reglur um tilkynningaskyldu þjónustuveitanda sem kemur með starfsmenn sína hingað til lands. Enn fremur er starfshópnum ætlað að koma fram með tillögur til félagsmálaráðherra um hvernig bæta megi framkvæmdina innan stjórnkerfisins í því skyni að tryggja að útlendingar dvelji og starfi hér á landi með lögmætum hætti og að áreiðanlegar upplýsingar um útlendinga sem eru að störfum hér á landi verði til. Jafnframt að kanna hvaða leiðir eru færar til að auka upplýsingagjöf og aðstoð við erlent starfsfólk sem starfar hér. Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili ráðherra áliti sínu og tillögum fyrir 1. nóvember 2006.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum