Utankjörfundaratkvæðagreiðsla hafin
Utankjörfundaratkvæðagreiðsla vegna sveitarstjórnarkosninga, sem fram fara 27. maí n.k., hófst 3. apríl. Atkvæðagreiðsla þessi hefst þannig áður en framboðsfrestur rennur út samkvæmt lögum um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998. Athygli kjósanda, sem hyggst neyta atkvæðisréttar síns fyrir þennan tíma, er hér með vakin á þessu atriði.
Samkvæmt kosningalögum fer atkvæðagreiðsla utan kjörfundar þannig fram, að kjósandi stimplar eða ritar á kjörseðil bókstaf þess lista, þegar um listakosningu er að ræða, sem hann vill kjósa og má hann jafnframt geta þess hvernig hann vill hafa röðina á listanum.
Í þessu sambandi skal tekið fram að stjórnmálasamtök, sem buðu fram við síðustu alþingiskosningar, eiga sér fastan listabókstaf. Listabókstafir annarra samtaka, sem bjóða fram við sveitarstjórnarkosningar, verða hins vegar ákveðnir af yfirkjörstjórn að framboðsfresti liðnum, að jafnaði eftir samkomulagi við umboðsmenn framboðslista.
Ennfremur skal tekið fram, að samkvæmt kosningalögum skal ekki meta atkvæði ógilt, þó gallað sé, ef greinilegt er hvernig það á að falla. Þannig skal t.d. taka gilt atkvæði sem greitt er utan kjörfundar þó að orðið listi fylgi listabókstaf að óþörfu á utankjörfundarseðli eða í stað listabókstafs standi heiti stjórnmálasamtaka.
Á kosningavef félagsmálaráðuneytisins www.kosningar.is má finna nánari upplýsingar um kosningarnar.
Dóms- og kirkjumálaráðuneytið og félagsmálaráðuneytið, 4. apríl 2006.