Hoppa yfir valmynd
5. apríl 2006 Dómsmálaráðuneytið

Skýrsla viðræðuhóps um löggæslumálefni í Reykjavík.

Í ágústmánuði árið 2003 var að frumkvæði Björns Bjarnasonar dóms- og kirkjumálaráðherra skipaður viðræðuhópur um löggæslumálefni í Reykjavík. Hópurinn hefur nú unnið skýrslu um starf sitt og kynnt dóms- og kirkjumálaráðherra tillögur sem hann gerir til framfara í löggæslumálum í höfuðborginni.

Fréttatilkynning
16/2006

Í ágústmánuði árið 2003 var að frumkvæði Björns Bjarnasonar dóms- og kirkjumálaráðherra skipaður viðræðuhópur um löggæslumálefni í Reykjavík og hefur hann síðan verið samstarfsvettvangur dóms- og kirkjumálaráðuneytis, lögreglu og borgaryfirvalda um löggæslumál í Reykjavík. Stefán Eiríksson, skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, hefur leitt starf hópsins en auk hans hafa borgarfulltrúarnir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Dagur B. Eggertsson setið í hópnum með Þorsteini Davíðssyni, aðstoðarmanni dóms- og kirkjumálaráðherra, Böðvari Bragasyni lögreglustjóra í Reykjavík og Ingimundi Einarssyni, varalögreglustjóra í Reykjavík. Hafa þeir rætt leiðir til að styrkja og efla samvinnu um öryggis- og löggæslumál í borginni.

Meðal áhersluatriða má nefna eflingu miðborgargæslu um helgar, samstarf um úrræði gegn neikvæðri hópamyndun unglinga og aðgerðir til að auka og efla öryggi í hverfum borgarinnar. Þá hefur starfs hópsins kveikt hugmyndi um ýmsar aðgerðir, sem þegar hefur verið hrundið í framkvæmd með einum eða öðrum hætti.

Nú hefur hópurinn unnið skýrslu um starf sitt og kynnt dóms- og kirkjumálaráðherra tillögur sem hann gerir til framfara í löggæslumálum í höfuðborginni.

Meðal þeirra tillagna má nefna:

  • Hverfalöggæsla verði þróuð áfram í hverfum borgarinnar og í nánum tengslum við þjónustumiðstöðvar í hverfum borgarinnar.
  • Samvinna lögreglu og borgaryfirvalda verði aukin, m.a. með óeinkennisklæddu eftirliti lögreglu í samvinnu við starfsmenn borgarinnar, bæði starfsmenn ÍTR og þjónustumiðstöðva.
  • Komið verði á formlegu samstarfi með samstarfssamningi eins og nú er á milli lögreglu og þjónustumiðstöðva í Grafarvogi og Breiðholti í öðrum hverfum borgarinnar. Sambærileg úrræði og Hringurinn í Grafarvogi og Breiðholti verði til staðar í fleiri hverfum borgarinnar.
  • Unnið verði að skipulagningu nágrannavörslu í náinni samvinnu við borgaryfirvöld og viðeigandi hverfisfélög. Stutt verði við þá tilraun sem er hafin á vegum Þjónustu- og rekstrarsviðs og Lögreglunnar í Reykjavík um nágrannavörslu í borginni, þar sem lögregla og borgaryfirvöld standa sameiginlega að námskeiðum um þetta efni í hverju þjónustuhverfi borgarinnar.
  • Unnið verði að því að efla sýnileika lögreglu með því að auka viðveru hennar í hverfum borgarinnar, efnt verði til funda reglulega í einstökum hverfum, þar sem farið verði yfir helstu leiðir til að koma í veg fyrir afbrot og efla tengsl lögreglu við borgarbúa með því að nýta upplýsingatækni til að miðla upplýsingum og taka við ábendingum frá borgurum.
  • Borgaryfirvöld og lögregla sjái til þess að eigendur mannlausra húsa gangi þannig frá eignum sínum að ekki ógni öryggi annarra vegna hústöku eða af öðrum ástæðum.

Skýrslu viðræðuhópsins í heild er unnt að finna hér.

Reykjavík 5. apríl 2006



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta