Drög að námskrám í listdansi fyrir grunnnám og nám á framhaldsskólastigi til kynningar
Menntamálaráðuneytið hefur birt drög að aðalnámskrá í listdansi á vefsvæði sínu menntamalaraduneyti.is og er hér um að ræða fyrstu heildstæðu námskrána í þessari listgrein. Námskráin er tvískipt, annars vegar námskrá í listdansi fyrir grunnnám, og hins vegar námskrá í listdansi fyrir framhaldsskólastig. Lýst er uppbyggingu náms, markmiðum og inntaki ásamt tilhögun náms og kennslu. Námskrá grunnnámsins birtist nú í fyrsta sinn en rammi að námskrá framhaldsskólastigs var til kynningar fyrr í vetur. Bárust gagnlegar umsagnir og athugasemdir frá 11 aðilum, einstaklingum og félagasamtökum.
Námskrárdrögin verða til kynningar á framangreindu vefsvæði til 24. apríl 2006. Á þeim tíma gefst hagsmunaaðilum og almenningi kostur á að senda athugasemdir og ábendingar um námskrárdrögin og einstaka þætti þeirra til menntamálaráðuneytisins, Sölvhólsgötu 4, 150 Reykjavík. Einnig er hægt að senda athugasemdir á netfangið [email protected].
Farið er vinsamlega fram á að efni þessa bréfs sé kynnt þeim sem málið varðar.