Hoppa yfir valmynd
10. apríl 2006 Innviðaráðuneytið

Tíðniheimildir fyrir háhraðaaðgangsnet auglýstar

Póst- og fjarskiptastofnun hefur auglýst eftir umsóknum frá fyrirtækjum um heimild þeim til handa til að nota tíðnir fyrir háhraða aðgangsnet. Samkvæmt markmiðum fjarskiptaáætlunar samgönguráðherra 2005 til 2010, sem samþykkt var á Alþingi í fyrra, er gert ráð fyrir að allir landsmenn njóti háhraðatengingar.

Stefnt er að því að allir landsmenn sem þess óska hafi fengið aðgang að háhraðatengingu fyrir lok ársins 2007. Stjórn Fjarskiptasjóðs hefur unnið að undirbúningi málsins undanfarið og með þessu er stigið fyrsta skrefið í því að hrinda af stað framkvæmdahlið Fjarskiptaáætlunarinnar.

Með auglýsingunni er verið að fá fram hvaða þjónustu fjarskipta- og netþjónustufyrirtækin eru tilbúin að veita í þeim byggðum sem ekki njóta háhraðatengingar í dag og er hér fyrst og fremst um að ræða byggðir sem ekki hafa til þessa notið ADSL háhraðatengingar. Skulu umsækjendur því tilgreina í hvaða sveitarfélagi eða hluta þess ætlunin er að veita umrædda þjónustu. Gera má ráð fyrir að fámennustu byggðir falli utan áhugasviðs umræddra fyrirtækja. Í þeim tilvikum gerir fjarskiptaáætlun ráð fyrir því að Fjarskiptasjóður komi til skjalanna og sinni uppbyggingu háhraðatengingar á þeim svæðum.

Samkvæmt auglýsingu Póst- og fjarskiptastofnunar verða boðin tíðnisviðin 3,5 GHz og 10 GHz en þau eru meðal annars ætluð fastasamböndum svo sem milli móðurstöðva og fastra stöðva notenda um þráðlaust aðgangsnet sem kemur í stað heimtaugar í jörðu. Segir í auglýsingunni að umrædd tíðnisvið séu talin henta vel til að ná þessum markmiðum. Gert er ráð fyrir að gagnaflutningsþjónusta sem verður veitt notendum verði með sambærilegum hraða og aðgangur með hefðbundnum koparheimtaugum (ADSL).

Eins og fyrr segir skulu umsækjendur tilgreina í hvaða sveitarfélögum þeir hyggist veita umrædda þjónustu og skal fylgja tímasett framkvæmdaáætlun um uppbyggingu aðgangsnetsins og þjónustu. Verður úthlutun tíðna takmörkuð við þau svæði. Öðrum umsækjendum verður einnig úthlutað sama tíðnisviði á öðrum svæðum verði eftir því leitað og tryggt sé að ekki komi til gagnkvæmra truflana.

Umsækjendum ber í umsókn sinni að veita ýmsar upplýsingar um starfsemi sína, svo sem fjárhagsstöðu, tengsl við önnur fjarskiptafyrirtæki, reynslu á fjarskiptasviði og hvaða tegund þjónustu verður veitt, hvaða gagnaflutningshraði verði tryggður, um áreiðanleika kerfisins og meðalviðgerðatíma í kerfinu og hjá einstökum áskrifendum.

Umsóknarfrestur er til loka vinnudags 15. maí og skal greiða 70 þúsund króna gjald fyrir hverja umsókn. Gildistími heimildar verður í 10 ár frá útgáfudegi. Gert er ráð fyrir að niðurstaða um afgreiðslu umsókna liggi fyrir í síðasta lagi eftir 4 til 6 vikur ef margar umsóknir berast en annars eftir um það bil viku ef eftirspurn verður minni en framboð á tíðnum.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum