Hoppa yfir valmynd
11. apríl 2006 Matvælaráðuneytið

Skýrsla um þátttöku Íslands í Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins (NPP)

Árangursríkt alþjóðlegt samstarf

á sviði byggðamála – NPP verkefnið

           

           

Út er komin matsskýrsla IMG (pdf-skjal, 3.4 MB) á þátttöku Íslands í Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins (Northern Periphery Programme – NPP).  Stjórn NPP á Íslandi óskaði eftir því við IMG ráðgjöf  að fyrirtækið kannaði og legði mat á gildi Norðurslóðaáætlunar ESB fyrir Ísland, framkvæmd hennar hér á landi og árangur af þátttöku, í þeim tilgangi að gera verkefnið öflugra og betra, væri slíkt mögulegt.

 

Í niðurstöðum IMG kemur fram að árangur af þátttöku sé ótvíræður og að það hafi verið farsæl ákvörðun íslenskra stjórnvalda að taka þátt í fjölþjóðasamvinnu af þessum toga. Núverandi NPP-áætlun nær yfir tímabilið 2000-2006 og eru íslenskir aðilar þátttakendur í 27 alþjóðlegum verkefnum sem verður að telja afar góðan árangur, en það er sami fjöldi og í Noregi. Heildarfjöldi íslenskra aðila sem kemur að þessum verkefnum beint eða óbeint, er um 2.500 manns víðsvegar að úr öllum landshlutum. Á þeim 4 árum sem Ísland hefur verið þátttakandi í áætluninni hafa stjórnvöld varið til hennar samtals 108 milljónum króna, en mótframlög annarra innlendra aðila eru um 194 milljónir króna. Þessir fjármunir hafa leitt til þátttöku í alþjóðlegum verkefnum sem samtals eru að upphæð 2,4 milljarðar. Með framlagi íslenskra stjórnvalda hefur því í raun tekist að 20-falda fjármagn til verkefna með þátttöku annarra aðila, aðallega erlendis, sem verður að telja afar góðan árangur.

 

Í skýrslunni kemur fram að áætlunin hafi í heild m.a. stuðlað að auknum ávinningi með auknu flæði þekkingar, fjármagns og tækni til landsins, samhliða uppbyggingu alþjóðlegra tengslaneta og samstarfs aðila á milli landa. Þetta hefur aukið samkeppnishæfni, styrkleika og tækifæri þátttökuaðila ekki síst á landsbyggðinni á innlendum sem alþjóðlegum vettvangi.

 

Árið 2002 var tillaga til þingsályktunar um stefnu í byggðamálum fyrir árin 2002 – 2005 samþykkt á Alþingi, sem byggðist á stefnumörkun stjórnvalda og áherslum iðnaðar- og viðskiptaráðherra Valgerðar Sverrisdóttur. Í þingsályktuninni var kveðið á um aukið alþjóðlegt samstarf, m.a. í þeim tilgangi að auka markvisst þátttöku atvinnulífs  og stofnana á landsbyggðinni í alþjóðlegum samstarfsverkefnum.  Ein af aðgerðunum gekk út á þátttöku í Norðurslóðaáætlun ESB og varð Ísland formlegur þátttakandi í því samstarfi á miðju ári 2002. Landsskrifstofa NPP er staðsett hjá Byggðastofnun.

 

Áætlunin nær til  norðlægra svæða í Finnlandi, Svíþjóð, Noregi og Skotlandi, en einnig til Grænlands, Færeyja og Íslands. Sum verkefni áætlunarinnar ná einnig til annarra landa s.s. Kanada, Bandaríkjanna (Alaska) og Rússlands. Meginmarkmið áætlunarinnar er að stuðla að eflingu atvinnu- og efnahagslífs svæða og byggða með svipaðar aðstæður, með samstarfsverkefnum yfir landamæri á milli einstaklinga, fyrirtækja, stofnana og skóla í þessum landshlutum.  Með verkefnunum er reynt að koma í veg fyrir að landamæri þjóðríkja sé hindrun í samstarfi og framþróun byggða og atvinnulífs með það að markmiði  að tækifæri og styrkleikar svæðanna fái notið sín sem best. Verkefnin innan NPP skapa mikilvæg tengsl og þekkingu sem byggja á alþjóðlegri samvinnu og framtaki einstaklinga, fyrirtækja og stofnana.

 

Stjórn NPP á Íslandi skipa: Baldur Pétursson frá iðnaðarráðuneyti sem er formaður, Herdís Sæmundardóttir frá Byggðastofnun og Pétur Snæbjörnsson, Reynihlíð, Mývatnssveit, en starfsmaður hennar er Þórarinn Sólmundarson, Byggðastofnun.  NPP heyrir undir iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið en Byggðastofnun rekur skrifstofu NPP á Íslandi. Nánari upplýsingar veitir Þórarinn Sólmundarson,  [email protected]  Á heimasíðu Byggðastofnunar má finna nánari upplýsingar   http://www.byggdastofnun.is/ErlentSamstarf/NPP

 

 

 

 

Byggðastofnun, iðnaðarráðuneytið

7. apríl, 2006

 

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum