Hoppa yfir valmynd
12. apríl 2006 Innviðaráðuneytið

Einföldun leyfisveitinga í undirbúningi

Nokkur umræða hefur verið að undanförnu um leyfisveitingar í veitinga- og gistihúsarekstri og gögn sem afla þarf til að hefja slíkan rekstur. Fram hefur komið að sækja þarf um leyfi hjá ýmsum aðilum og leggja fram margvísleg gögn og vottorð áður en slík leyfi fást. Unnið er nú að því á vegum samgönguráðuneytis í samvinnu við dóms- og kirkjumálaráðuneyti, umhverfisráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga að skoða möguleikann á að fækka umræddum leyfum og einfalda feril gagnaöflunar. Samgönguráðuneytið vonast til að umbætur á þessum sviðum nái fram að ganga á næstu misserum.

Sækja þarf um sex tegundir leyfa til að hefja veitinga- og/eða gistihúsarekstur. Leyfin eiga sér stoð í lögum sem ná yfir starfsemi fyrirtækja á þessu sviði, en það eru skipulags- og byggingalög nr. 73/1997, lög um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998, lög um tóbaksvarnir nr. 6/2002, lög um veitinga- og gististaði nr. 67./1985, lög um heimild til að marka skemmtunum og samkomum tíma nr. 120/1947 og áfengislög nr. 75/1998. Sveitarfélögin gefa út byggingaleyfi og áfengisveitingaleyfi, heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna gefa út starfsleyfi og tóbakssöluleyfi og lögreglustjórar gefa út veitingaleyfi og skemmtanaleyfi en öll falla þessi leyfi undir hin ýmsu ráðuneyti.

Starfshópur sem fjallað hefur um málið frá liðnu hausti hefur nú einkum til skoðunar hvernig  fækka má þeim sex leyfum sem lögin gera ráð fyrir. Mörg sjónarmið eru á lofti varðandi þessi atriði sem samræma þarf eigi að nást niðurstaða um til dæmis fækkun leyfa. Ráðgert er að leggja fram á næsta þingi lagafrumvarp sem miðar að einföldun þessara mála.

Samhliða þessari vinnu telur samgönguráðuneytið nauðsynlegt að kanna hvort ekki megi fækka gögnum sem aðilar þurfa að skila með umsókn um veitingaleyfi. Eru það ýmis vottorð sem forráðamenn og stjórnarmenn fyrirtækja þurfa að leggja fram, svo sem sakarvottorð, vottorð um greiðslustöðu opinberra gjalda og fleira. Þessi gögn þarf í dag að leggja fram hjá lögreglustjóra en hugsanlegt er að búa svo um hnúta að í stað þess að umsækjandi afli þessara gagna á nokkrum stöðum verði leyfisveitanda falið að afla þeirra rafrænt. Slíkt hefur nokkurn kostnað í för með sér og þarf að huga að því hvernig honum verður mætt. Niðurstöðu er að vænta fljótlega en mikið hagræði væri að breytingum á þessu sviði og nýta má fjarskipti til að einfalda gagnaöflun fyrir leyfisveitanda.

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra gerði þessi mál að umtalsefni á aðalfundi Samtaka ferðaþjónustunnar nýverið og sagði að leita yrði allra leiða til að draga úr skriffinnsku. “Við þessa vinnu hefur verið og mun áfram verða haft mikið samráð við SAF,” sagði ráðherrann í ræðu sinni á aðalfundinum.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum