Skrifað undir þróunar- og samstarfssamning um málaskrárkerfi
Fréttatilkynning
18/2006
Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, og Ólafur Daðason, forstjóri Hugvits hf., undirrituðu í dag, miðvikudaginn 12. apríl, þróunar- og samstarfssamning um GoPro málaskrákerfi fyrir stofnanir ráðuneytisins. Hjá ráðuneytinu og stofnunum þess starfa um 1.500 manns, í 60 starfsstöðvum um land allt og þar er að finna verðmæta þekkingu og reynslu í almannaþjónustu og stjórnsýslu.
Markmið ráðuneytisins með samningnum við Hugvit er að nýta upplýsingatækni til aukinnar skilvirkni og einföldunar verkferla innan stofnana og milli þeirra.
Sérstaklega er stefnt að:
- Hærra þjónustustigi gagnvart borgurum með upplýsingaveitu og sjálfsafgreiðslu.
- Rafvæðingu gagna þannig að dragi úr notkun á pappír eins og kostur er.
- Auknu hagræði í samskiptum milli starfsmanna innan embætta og milli stofnana.
- Samræmingu bréfalykla, sniðmáta og verkferla hjá embættum.
- Skilvirkari vistun og geymslu skjala hjá embættum.
- Rafrænum skilum til Þjóðskjalasafns.
- Hagkvæmum hugbúnaðarlausnum til framtíðar.
Samstarf Hugvits og ráðuneytanna um þróun hugbúnaðarkerfis fyrir ráðuneytin á sér langa sögu. Allt frá árinu 1994 hafa þessir aðilar unnið saman að mótun, innleiðingu og prófun kerfis sem ráðuneytin nefna málaskrárkerfið. Það er eitt af undirstöðukerfum ráðuneytanna og með því er haldið utan um meðferð og stjórnun verkefna, mála og skjala. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið vill byggja á þeirri reynslu og þekkingu með því að innleiða sambærilegt málskrákerfi fyrir stofnanir ráðuneytisins.
Dóms- og kirkjumálaráðuneytið telur að með þessu sé enn skref stigið til að stuðla að því að stofnanir þess verði í fararbroddi við notkun og hagnýtingu upplýsingatækni innan stjórnsýslunnar.
Reykjavík 12. apríl 2006