Hoppa yfir valmynd
19. apríl 2006 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherrafundur Norðurlandanna á Svalbarða 18.-20. apríl 2006

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu

Nr. 024

Geir H. Haarde, utanríkisráðherra, situr nú fund utanríkisráðherra Norðurlandanna á Svalbarða, en hann byrjaði í gær með óformlegum vinnukvöldverði ráðherranna, og lýkur á morgun.

Á fundi sínum í dag ræddu ráðherrarnir mikilvægi Norðurskautssvæðisins fyrir Norðurlöndin og þá framtíðarhagsmuni sem tengdir eru þróun svæðisins, breytingum á náttúru þess og auðlindanýtingu. Réttarstaðan á Svalbarðasvæðinu var rædd og reifaði Geir H. Haarde sjónarmið Íslands í því máli. Öryggismál á norðurslóðum voru einnig til umræðu og gerði utanríkisráðherra samstarfsráðherrum sínum grein fyrir stöðunni í viðræðunum við Bandaríkin um framtíð varnarsamstarfs Íslands og Bandaríkjanna. Lagði hann ennfremur áherslu á nauðsyn þess að efla samstarf og samráð um öryggi í siglingum og viðbúnað ríkja við Norður-Atlantshaf til að bregðast við fyrirsjáanlegri mikilli aukningu sjóflutninga á Norður-Íshafi og Norður-Atlantshafi í tengslum við auðlindanýtingu á norðurslóðum, ekki síst olíu- og gasvinnslu.

Á morgun munu ráðherrarnir m.a. ræða ástandið í Mið-Austurlöndum og framtíð friðarferlisins, kjarnavopnaáætlun Írans og nýafstaðnar kosningar í Hvítarússlandi. Þá mun utanríkisráðherra gera norrænum starfsbræðrum sínum grein fyrir undirbúningi Íslands vegna framboðsins til öryggisráðsins.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta