Ávarp umhverfisráðherra á Degi umhverfisins 25. apríl 2006
Ágætu fundarmenn,
Það er gaman að sjá svo marga saman komna hér í dag í tilefni af Degi umhverfisins. Til hamingju með daginn! Að þessu sinni er dagurinn tileinkaður endurnýtingu og úrvinnslumálum og þótti okkur í ráðuneytinu vel til fundið að bjóða ykkur til fræðslu- og hátíðarfundar af því tilefni um þau mál og ég vona að við eigum hér ánægjulega stund.
Áður en lengra er haldið vil ég nefna að Kuðungurinn fyrir árið 2005 verður afhendur hér á eftir kl. 16:30. Hann er umhverfisviðurkenning umhverfisráðuneytisins til fyrirtækja. Kuðungurinn var fyrst veittur árið 1994 en þá fékk Gámaþjónustan hf viðurkenninguna. Á hverju ári er fenginn nýr listamaður til að hanna nýjan Kuðung sem Kuðungshafinn fær til eignar. Að þessu sinni var leirlistakonan Ólöf Erla Bjarnadóttir fengin til að hanna Kuðunginn. Einnig fær kuðungshafinn að nota merki eða logo verðlaunanna í eitt ár, en það merki hannaði listakonan Kristín Þorkelsdóttir.
Ég vil vekja athygli ykkar á kynningarbásum hér frammi en þeir koma frá Sorpu og Vistvernd í verki. Hér á eftir verður í fræðsluerindum frá Sorpu, Gámaþjónustunni og Úrvinnslusjóði fjallað um leiðir í úrvinnslumálum og fulltrúi frá Línuhönnun ætlar að leiða okkur í allan sannleikann um það hvernig sé að lifa með ISO 14001 vottun á verkfræðistofu. Umhverfisstarf í fyrirtækjum verður mikilvægara ár frá ári og framsýn fyrirtæki gera sér glögga grein fyrir því að vinna að umhverfismálum getur fjölgað verkefnum, bætt rekstur, aukið hagnað og bætt bæði heilsufar starfsmanna og ímynd fyrirtækisins.
Nýlega var haldin ráðstefna um umhverfisstarf í fyrirtækjum undir yfirskriftinni Hreinn ávinningur – hvað er að græða á umhverfisstarfi í fyrirtækjum. Ræðumenn á þeirri ráðstefnu töldu að fyrirtæki þeirra væru komin langt fram úr þeim umhverfiskröfum sem opinberir aðilar gera til fyrirtækja og vildu sjá strangari kröfur en jafnframt að opinbert eftirlit yrði einfaldað og helst einkavætt. Í umhverfisráðuneytinu, og raunar stjórnarráðinu öllu, stendur nú yfir vinna við að einfalda reglur og eftirlit og vonast ég til að árangur af henni komi í ljós síðar á þessu ári.
Elstu menn í ráðuneytinu telja að starfsmönnum ráðuneytisins og stofnana þess hafi ekki verið boðið sérstaklega til fundar frá því á fyrstu dögum ráðuneytisins. Það var því tími til kominn og vonandi njótið þið dagsins með okkur. Hingað var einnig boðið úthlutunarnefnd Kuðungsins. Formaður hennar Júlía G. Ingvarsdóttir gerir grein fyrir starfi nefndarinnar hér á eftir. Þá buðum við meðal annars fulltrúum þeirra fyrirtækja sem sjá um fræðsluerindin, fulltrúum frjálsra félagasamtaka, að ógleymdum fjölmiðlum.
Dagur umhverfisins hefur verið haldinn hátíðlegur frá árinu 1999. Undanfarin ár hefur hann verið tileinkaður sérstökum málaflokkum sem heyra undir ráðuneytið. Eitt árið var dagurinn helgaður farfuglum og í fyrra voru þjóðgarðar og náttúruvernd í brennidepli. Viðburðir í tilefni dagsins hafa verið breytilegir ár frá ári. Sveitarfélög og skólar hafa mörg hver haldið upp á daginn með ýmsum hætti. Nú er boðið upp á verðlaunaspurningaleik á vefnum um úrvinnslumál og er leikurinn samstarfsverkefni Úrvinnslusjóðs, Umhverfisstofnunar og ráðuneytisins.
Þá hefur í dag göngu sína nýtt vefrit umhverfisráðuneytisins. Áformað er að gefa það út um það bil einu sinni í mánuði og oftar ef þurfa þykir og er markmiðið að efla og bæta umfjöllun um umhverfismál.
Umhverfisfræðsluráð og umhverfisráðuneytið buðu stofnununum og félagsamtökum að vera með kynningarbása um starf sitt að umhverfisfræðslu á sýningunni Sumar 2006 í Laugardalshöll um síðustu helgi. Sýnendur voru mjög ánægðir með framtakið og fullvíst að gestir sýningarinnar lærðu ýmislegt nýtt um umhverfismál á umhverfisfræðslutorginu. Margir notuðu tækifærið og gengu í félög eins og Landvernd, Fuglaverndarfélagið, Garðyrkjufélag Íslands og Skógræktarfélagið. Náttúruskólinn í Reykjavík var með bás í samstarfi við Húsdýragarðinn þar sem hægt var að koma við krabba og krossfiska. Námsgagnastofnun kynnti umhverfisfræðsluforritið Heiminn minn og námsefni um náttúruna og umhverfismál og Umhverfisstofnun kynnti norræna Svaninn og ýmislegt fleira. Á sýningunni voru umhverfisvænar vörur og þjónusta áberandi og greinilegt að umhverfismál voru flestum sýnendum ofarlega í huga.
Eins og áður sagði er Dagur umhverfisins að þessu sinni helgaður endurnýtingu og úrvinnslu. Í umhverfisráðuneytinu er stöðugt unnið að því að auka úrvinnslu úrgangs. Síðasta skrefið sem stigið var í þessum málaflokki var að leggja úrvinnslugjald á allar pappa-, pappírs- og plastumbúðir en gjaldinu er ætlað að standa undir endurnýtingu og endurvinnslu á slíkum umbúðaúrgangi. Vænta má að á næstu árum verði mikil aukning í endurnýtingu og endurvinnslu á umbúðaúrgangi en það er flokkur úrgangs sem hefur farið ört vaxandi síðustu árin og við höfum öll sem neytendur orðið vör við.
Í umhverfisráðuneytinu er hafin vinna við innleiðingu tilskipunar Evrópusambandsins um raf- og rafeindatækjaúrgang. Tilskipunin er frábrugðin öðrum tilskipunum Evrópusambandsins á sviði úrgangsmála að því leyti að ábyrgðin á að fjármagna og reka endurvinnslu á raf- og rafeindatækjaúrgangi er lögð alfarið á framleiðendur, en innflytjendur teljast í þessu sambandi einnig framleiðendur. Með framleiðendaábyrgð eru framleiðendur alfarið gerðir ábyrgir fyrir vörum sínum allan endingartíma þeirra og gert er ráð fyrir að þetta hafi þau áhrif að þeir framleiði vörurnar á þann hátt að auðveldara verði að endurnýta eða endurnota þær. Þarna er um nýja áskorun að ræða fyrir atvinnulífið hér á landi og þegar þetta fyrirkomulag tekur gildi og má gera ráð fyrir að ávinningur umhverfisstarfs fyrirtækja á þessu sviði skili sér vel.
Að þessum orðum sögðum set ég fundinn og fel Magnúsi Jóhannessyni ráðuneytisstjóra fundarstjórn.