Hoppa yfir valmynd
25. apríl 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Sveitarstjórnarmönnum fækkar um 128

Í allmörgum sveitarfélögum hafa verið samþykktar breytingar á fjölda kjörinna fulltrúa í sveitarstjórn. Samkvæmt 12. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, skal kveðið á um fjölda fulltrúa í sveitarstjórn í samþykkt um stjórn viðkomandi sveitarfélags og fer fjöldi fulltrúa eftir íbúafjölda.

Ráðuneytið hefur staðfest breytingar á fjölda fulltrúa í sveitarstjórnum eftirfarandi sveitarfélaga:

Númer Nafn Fjöldi 2002 Fjöldi 2006
2506 Sveitarfélagið Vogar 5 7
6400 Dalvíkurbyggð 9 7
6514 Hörgárbyggð 7 5
8509 Skaftárhreppur 7 5
8614 Rangárþing ytra 9 7
8720 Skeiða- og Gnúpverjahreppur 7 5
Breytingar alls 44 36


Öllu meiri fækkun mun þó eiga sér stað vegna sameiningar sveitarfélaga. Tólf ný sveitarfélög urðu til á kjörtímabilinu. Í töflunni hér fyrir neðan er tilgreindur fjöldi sveitarstjórnarmanna í öllum þeim sveitarfélögum sem nú mynda hið nýja sveitarfélag.

Árið 2003 sameinuðust Búðahreppur og Stöðvarhreppur og mynduðu Austurbyggð sem aftur sameinast Fjarðabyggð, Fáskrúðsfjarðarhreppi og Mjóafjarðahreppi í kjölfar sveitarstjórnarkosninganna í vor.

Árið 2004 sameinuðust annars vegar Akureyrarkaupstaður og Hríseyjarhreppur, og hins vegar Austur- Hérað, Norður- Hérað og Fellahreppur sem mynduðu Fljótsdalshérað.

Um síðustu áramót sameinuðust Svínavatnshreppur, Sveinsstaðahreppur, Torfalækjarhreppur og Bólstaðarhlíðarhreppur og mynduðu Húnavatnshrepp. Húnavatnshreppur mun sameinast Áshrepp í kjölfar kosninganna í vor.

Við almennar sveitarstjórnarkosningar 27. maí 2006 verður kosið til nýrrar sveitarstjórnar í tíu sameinuðum sveitarfélögum. Þrjú þeirra hafa fengið stjórnsýsluheiti þegar þetta er ritað, Fjarðabyggð, Dalabyggð og Húnavatnshreppur. Í flestum hinna sveitarfélaganna mun fara fram atkvæðagreiðsla um heiti sameinaðs sveitarfélags samhliða sveitarstjórnarkosningunum.

Í meðfylgjandi töflu má sjá breytingar á fjölda fulltrúa í sveitarstjórnum hinna sameinuðu sveitarfélaga.

Nýtt sveitarfélag Fjöldi 2002 Fjöldi 2006 Nýtt stjórnsýsluheiti
Fljótsdalshérað 17 11
Akureyrarkaupstaður 16 11
Sameinað sveitarfélag Hólmavíkurhrepps
og Broddaneshrepps
10 5
Sameinað sveitarfélag Áshrepps og Húnavatnshrepps 25 7 Húnavatnshreppur
Sameinað sveitarfélag Gaulverjarbæjarhrepps,
Hraungerðishrepps og Villingaholtshrepps
15 7
Sameinað sveitarfélag Þórshafnarhrepps
og Skeggjastaðahrepps
10 7
Sameinað sveitarfélag Skilmannahr., Innri- Akraneshr.,
Hvalfjarðarstrandarhr. og Leirár- og Melahr.
20 7
Sameinað sveitarfélag Dalabyggðar og Saurbæjarhrepps 12 7 Dalabyggð
Sameinað sveitarfélag Siglufjarðarkaupstaðar
og Ólafsfjarðarbæjar
16 9
Sameinað sveitarfélag Húsavíkurbæjar, Keldunes-hrepps, Öxarfjarðarhrepps og Raufarhafnarhrepps 24 9
Sameinað sveitarfélag Borgarbyggðar,
Borgarfjarðarsveitar, Hvítársíðuhr. og Kolbeinsstaðahr.
24 9
Sameinað sveitarfélag Fjarðabyggðar, Austurbyggðar,
Fáskrúðsfjarðarhrepps og Mjóafjarðarhrepps
29 9 Fjarðabyggð
Breyting alls 218 98


Samanlagður fulltrúafjöldi í sveitarstjórnum ofangreindra tíu sveitarfélaga verður því 98 en var áður 218. Fækkun sveitarstjórnarmanna vegna sameiningar sveitarfélaga nemur því 120 fulltrúum. Þegar bætt er við þeirri fækkun sem leiðir af samþykktum sveitarstjórna, og raktar voru að framan, er ljóst að kjörnum fulltrúum í sveitarstjórnum mun fækka um 128 frá upphafi síðasta kjörtímabils. Heildarfjöldi sveitarstjórnarmanna sem kjörnir voru í kosningunum 2002 var 657 en verða eftir sveitarstjórnarkosningar 529.

Skjal fyrir Microsoft ExcelFjöldi sveitarstjórnarmanna eftir sveitarfélögum



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta