Hoppa yfir valmynd
27. apríl 2006 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra á ráðstefnu Gróðurs fyrir fólk í landnámi Ingólfs

Góðir gestir,

Mér er það ánægja að segja hér nokkur orð í byrjun þessarar ráðstefnu, sem Gróður fyrir fólk í landnámi Ingólfs stendur fyrir.

Maður og náttúra eru ekki andstæður, heldur er maðurinn hluti af náttúrunni og vistkerfinu, þrátt fyrir alla sína tækni. Í hinni svokölluðu Þúsaldarúttekt á vistkerfi jarðar, merkilegri skýrslu sem út kom á vegum Sameinuðu þjóðanna í fyrra, er bent á að bæði efnahagsleg og önnur velferð mannkyns byggir að miklu leyti á þróttmiklum vistkerfum. Því miður er það svo að mannkynið er víða að ofnýta vistkerfin eða eyða þeim og þannig vegur maðurinn í víðasta skilningi að rótum eigin velferðar.

Því miður eru fá betri skólabókardæmi um slíka eyðingu vistkerfa til skaða fyrir mannfólkið en aldalöng eyðing gróðurs og jarðvegs hér á landi. Landgræðslan og fleiri opinberar stofnanir vinna þarft og gott verk við að stöðva þá eyðingu og snúa henni við, en það er ekki síst merkilegt við landgræðslustarfið á Íslandi að almenningur og félagasamtök hafa lengi lagt því lið. Samtökin Gróður fyrir fólk í landnámi Ingólfs voru góð viðbót við þá flóru þegar þau voru stofnuð á síðasta áratug og hugmyndin sem býr að baki samtökunum er mjög snjöll. Hér í landnámi Ingólfs býr stærsti hluti þjóðarinnar og hér fellur til mikið af lífrænum úrgangi, sem kjörinn er til að bæta jarðveg og gæða landið lífi. Hér næst líka fjölþættur ávinningur með landgræðslustarfinu. Gróður í nágrenni höfuðborgarsvæðisins er fólki til yndisauka og getur jafnvel lagt lóð á vogarskálarnar við að draga úr svifryksmengun, sem er að hluta til ættuð frá uppblæstri í nágrenni þéttbýlisins.

Umhverfisráðuneytið hefur lagt starfi Gróðurs fyrir fólk lið með beinum fjárframlögum úr potti sem ætlaður er til að styrkja starf frjálsra félagasamtaka. Ég vona að það muni um það framlag, en eðli málsins samkvæmt er það þó minnihluti starfsins sem er fjármagnaður á þann hátt, því starf samtakanna er borið uppi af einstaklingum, fyrirtækjum og samtökum sem vilja verkefninu vel. Slík grasrótarstarfsemi - í þessu tilfelli í bókstaflegri merkingu þess orðs - er nauðsynleg í umhverfismálum. Gróðri fyrir fólk í landnámi Ingólfs hefur tekist að virkja afl og góðan vilja fjölmargra aðila til verka, en njóta líka þeirrar gæfu að fyrir þau starfar vel menntað fólk, sem veit hvernig hægt er að standa að hlutunum með forsjá, auk kappsins sem þarf.

Meginmarkmið um úrgang hér á landi er að dregið verði úr myndun hans. Þeim úrgangi sem til verður á að koma eftir föngum í endurnotkun og endurvinnslu, en síðasta úrræðið er að farga honum, sem á þá að gera með skipulögðum hætti svo að hann nái jafnvægi við umhverfi sitt á sem skemmstum tíma.

Stjórnvöld hafa á síðustu árum bætt lagaumhverfi um lífrænan úrgang og sett töluleg markmið um endurnýtingu hans. Stefnt er að því að magn lífræns úrgangs sem verður urðað árið 2009 verði ekki meira en 75% af því sem var árið 1995. Um mitt ár árið 2013 á magnið að vera komið niður í 50% og eigi síðar en 1. júlí 2020 niður í 35% miðað við grunnárið 1995. Sveitarfélög eiga að gera grein fyrir því í áætlum sínum um meðhöndlun úrgangs hvernig endurnýtingu lífræns úrgangs er háttað. Ljóst er að jarðgerð lífræns úrgangs er ein af þeim leiðum sem velja þarf í auknum mæli til að ná settum markmiðum. Ég vil einnig geta þess hér að frá og með 1. janúar 2009 verður óheimilt að urða ómeðhöndlaðan sláturúrgang.

Góðir gestir,

Heiti ráðstefnunnar er: Lífrænn úrgangur, rusl eða gull? Svarið við spurningunni er augljóst. Það er vissulega fólgið gull í þeim lífræna úrgangi sem fellur til hér á höfuðborgarsvæðinu. Njáll á Bergþórshvoli vissi hvað hann söng forðum í þessum efnum eins og svo mörgum öðrum. Skarnið er gulls ígildi. Það skarn sem nú fellur af borðum allsnægtaþjóðfélagsins í formi lífræns úrgangs er líka fyrirtaks gjaldmiðill til að greiða skuldina við landið. Við þurfum ekki að taka upp erlenda mynt til draga úr þeim sögulega viðskiptahalla.

Ég þakka samtökunum Gróðri fyrir fólk í landnámi Ingólfs fyrir giftudrjúg störf sem ég met mikils og óska ykkur öllum góðs gengis á þessari ráðstefnu í dag, sem ég veit að eflir starfið enn frekar.

Takk fyrir,



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta