Hoppa yfir valmynd
27. apríl 2006 Innviðaráðuneytið

Íslandspóstur byggir ný pósthús og eflir samkeppnisstöðuna

Stjórn Íslandspósts hefur ákveðið að byggja upp aðstöðu fyrirtækisins á landsbyggðinni og er það hluti af víðtækri stefnumótun sem tryggja á þróun og vöxt Íslandspósts til framtíðar. Þá verður ráðist í endurbætur á pósthúsum á nokkrum stöðum og framundan er að endurskoða þjónustunet félagsins á höfuðborgarsvæðinu.

Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts, kynnti stefnumótunina á fundi með starfsmönnum víða af landinu sl. miðvikudag. Hann sagði þessar breytingar munu skila ótvíræðum árangri fyrir viðskiptavini og starfsmenn, ný aðstaða muni bjóða uppá aukna möguleika á bættri þjónustu og efla samkeppnisstöðu félagsins.

Skilgreind hafa verið 17 kjarnasvæði á landinu þar sem 16 pósthús auk póstmiðstöðvar og pósthúsa á höfuðborgarsvæðinu mynda þéttriðið þjónustunet fyrir viðskiptavini Íslandspósts um land allt. Pósthús á kjarnasvæðum verða auk höfuðborgarsvæðisins á Akranesi, í Borgarnesi, Stykkishólmi, á Patreksfirði, Ísafirði, Blönduósi, Sauðárkróki, Akureyri, Húsavík, Egilsstöðum, Reyðarfirði, Höfn, Hvolsvelli, Selfossi, Vestmannaeyjum og Reykjanesbæ. Á þessum kjarnasvæðum munu pósthús þjóna viðskiptavinum á öllu svæðinu. Þau sjá um útkeyrslu sendinga og flokkun þeirra, þar verður aðstaða fyrir bréfbera og landpósta og þar fer fram móttaka og afhending sendinga. Ein póstafgreiðsla eða fleiri verða á hverju kjarnasvæði.

Ingimundur Sigurpálsson sagði að brýnt væri að bæta aðstöðu félagsins víða um landið og í því skyni hefði verið ákveðið að byggja ný pósthús á tíu stöðum og endurbæta aðstöðuna á sex stöðum. Nýju pósthúsin verða 300 til 800 fermetrar að stærð og munu framkvæmdir við það fyrsta, sem verður reist á Reyðarfirði, hefjast með haustinu. Arkitekt er Valdimar Harðarson. Stefnt er að því að ljúka þessari uppbyggingu árið 2009. Meðfram verður ráðist í endurbætur á öðrum stöðum í samræmi við eftirspurn eftir þjónustu. Fjárfestingin verður um 950 milljónir króna að frádregnum kringum 200 milljónum sem gert er ráð fyrir að fáist fyrir afgreiðslur sem seldar verða.

Hjá Íslandspósti starfa nú um 1.200 manns og velta félagsins var á síðasta ári um 5,4 milljarðar króna. Fluttar voru á síðasta ári um 110 milljónir sendinga sem þýðir kringum 440 þúsund á dag. Á hverjum degi eru að meðaltali flutt um 44 tonn af pósti um landið. Ingimundur segir að hefðbundnum bréfasendingum hafi ekki fækkað á síðustu árum og að mikil aukning hafi orðið í markpósti og fjöldasendingum.

Nánari upplýsingar eru á vef Íslandspósts:

http://www.postur.is/Frettir/060425_Uppbyggingposthusalandsbyggd.html



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta