Nýr formaður Innflytjendaráðs stýrir stefnumótun félagsmálaráðuneytisins í málefnum innflytjenda
Félagsmálaráðherra hefur skipað Sæunni Stefánsdóttur, aðstoðarmann ráðherra, nýjan formann Innflytjendaráðs en ráðið var sett á fót í nóvember sl. Innflytjendaráði er ætlað að fjalla um helstu atriði er varða aðlögun útlendinga að íslensku samfélagi og vera stjórnvöldum til ráðgjafar við stefnumótun í málaflokknum. Félagsmálaráðherra hefur ákveðið að stefnumótun í málefnum innflytjenda og forgangsröðun verkefna félagsmálaráðuneytisins á því sviði liggi fyrir haustið 2006. Ráðherra leggur áherslu á að hér sé um forgangsmál að ræða og markmiðið með starfi Innflytjendaráðs sé að viðhalda jákvæðum áhrifum innflytjenda á íslenskt samfélag og efla þá til virkrar þátttöku á sem flestum sviðum. Félagsmálaráðherra leggur áherslu á að Innflytjendaráð beiti sér fyrir því að ríki og sveitarfélög vinni saman að þeim markmiðum ásamt aðilum vinnumarkaðarins, félagasamtökum og félögum innflytjenda. Fjölmenningarsetrið á Ísafirði og Alþjóðahús í Reykjavík gegni þar afar mikilvægu hlutverki.
Innflytjendaráð er þannig skipað:
- Sæunn Stefánsdóttir formaður, skipuð af félagsmálaráðherra án tilnefningar, varamaður Bjarni Ragnar Brynjólfsson,
- Hildur Jónsdóttir, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, varamaður Védís Jóhanna Geirsdóttir,
- Vilborg Ingólfsdóttir, tilnefnd af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, varamaður Helgi Már Arthursson,
- Þorsteinn Davíðsson, tilnefndur af dóms- og kirkjumálaráðuneyti, varamaður Jóhann Jóhannsson,
- Kristín Jónsdóttir, tilnefnd af menntamálaráðuneyti, varamaður Guðni Olgeirsson,
- Tatjana Latinovic, skipuð af félagsmálaráðherra án tilnefningar, varamaður Andrea Sompit Siengboom.
Starfsmaður innflytjendaráðs og nefndar um flóttafólk er Ingibjörg Broddadóttir, deildarstjóri í félagsmálaráðuneyti.
Í skýrslu nefndar um aðlögun innflytjenda að íslensku samfélagi er að finna ítarlegri umfjöllun um verkefni ráðsins.