Utanríkisráðherrafundur Atlantshafsbandalagsins í Sofía
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
Nr. 027
Geir H. Haarde, utanríkisráðherra, situr nú óformlegan fund utanríkisráðherra Norður-Atlantshafsbandalagsins sem byrjaði í dag í Sofía í Búlgaríu og lýkur á morgun. Á fundinum ræddu ráðherrarnir undirbúning leiðtogafundar bandalagsins sem haldinn verður í Riga í nóvember n.k. Meðal annars var rætt um hugmyndir um stækkun bandalagsins, aukið samstarf NATO við ríki utan Evró-Atlantshafssvæðisins, og mögulegt samstarf við ríki í Miðausturlöndum um þjálfun friðargæslusveita. Ráðherrarnir ræddu einnig ástandið í Afganistan og friðargæslu bandalagsins í landinu og áframhaldandi veru friðargæslusveita NATO í Kosovó.
Á morgun verða haldnir fundir í samstarfsráði bandalagsins með Rússlandi og í samstarfsnefnd bandalagsins með Úkraínu.
Í kvöld situr utanríkisráðherra kvöldverðarfund ráðherra frá ríkjum Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins. Þar verður m.a. fjallað um þróun mála í Miðausturlöndum og í Darfúr í Súdan.