Áhrif breytinga laga um frjálsan búsetu- og atvinnurétt
Ríkisborgurum Eistlands, Lettlands, Litháens, Póllands, Slóvakíu, Slóveníu, Tékklands og Ungverjalands er frá og með 1. maí sl. heimilt að koma hingað til lands í atvinnuleit og ráða sig til starfa hér á landi án sérstakra atvinnuleyfa, sbr. lög nr. 21/2006, um breytingu á lögum um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, nr. 47/1993, og lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002.
Atvinnurekendur tilkynni ráðningu til Vinnumálastofnunar innan tíu virkra daga
Atvinnurekendur sem ráða ríkisborgara þessara ríkja til starfa þurfa að tilkynna um ráðninguna til Vinnumálastofnunar. Í tilkynningunni skal koma fram nafn atvinnurekanda, kennitala og heimilisfang og nafn starfsmanns, kennitala og aðsetur hér á landi. Ráðningarsamningur skal fylgja með þar sem sýnt er fram á að laun og önnur starfskjör séu tryggð samkvæmt íslenskum lögum og kjarasamningum. Tilkynningin skal berast stofnuninni innan tíu virkra daga frá ráðningu. Vinnumálastofnun er heimilt að leggja dagsektir á atvinnurekendur láti þeir hjá líða að skrá framangreinda ríkisborgara sem starfa hjá þeim. Skal Vinnumálastofnun halda skrá yfir þá útlendinga sem koma frá framangreindum ríkjum til að starfa hér á landi.
Undirstrika ber að jafnframt skráningunni þurfa umræddir ríkisborgarar áfram að sækja um EES-dvalarleyfi samkvæmt lögum um útlendinga.
Staða þeirra sem höfðu öðlast tímabundin atvinnu- og dvalarleyfi fyrir 1. maí sl.
Ríkisborgarar framangreindra ríkja, sem komu til landsins fyrir 1. maí sl. og hafa tímabundin atvinnu- og dvalarleyfi, fá sömu stöðu og landar þeirra er koma hingað til lands eftir fyrrgreint tímamark. Þeir þurfa því ekki sérstakt atvinnuleyfi vegna starfa sinna hér á landi en atvinnurekendur þurfa að tilkynna um ráðningu þeirra til Vinnumálastofnunar.
Staða þeirra sem höfðu öðlast búsetuleyfi og óbundið atvinnuleyfi fyrir 1. maí sl.
Lög nr. 21/2006, sem öðluðust gildi 1. maí sl., hafa ekki áhrif á réttarstöðu ríkisborgara framangreindra ríkja sem hafa fengið bæði búsetuleyfi samkvæmt lögum um útlendinga, nr. 96/2002, og óbundið atvinnuleyfi samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002. Atvinnurekendur þurfa ekki að tilkynna um ráðningu þeirra enda hafa þeir ótakmarkaða heimild til að ráða sig til starfa hér á landi.
Forgangur ríkisborgara innan Evrópska efnahagssvæðisins undirstrikaður enn frekar
Með lögum þessum er forgangur ríkisborgara ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins undirstrikaður enn frekar. Með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið hafa íslensk stjórnvöld skuldbundið sig til að skapa skilyrði fyrir fulla atvinnu, bætt lífskjör og starfsskilyrði á svæðinu. Í skuldbindingum íslenskra stjórnvalda felst að þau veiti launamönnum sem eru ríkisborgarar aðildarríkjanna forgang að innlendum vinnumarkaði. Verður þeirri stefnu áfram framfylgt við framkvæmd laga um atvinnuréttindi útlendinga og atvinnurekendur hvattir til að leita eftir vinnuafli á sameiginlegum innri markaði.
Veiting atvinnuleyfa til ríkisborgara frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins
Um veitingu atvinnuleyfa til ríkisborgara frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins munu áfram gilda lög um atvinnuréttindi útlendinga, sbr. 7. gr. laganna. Verður því áfram litið til vinnumarkaðssjónarmiða og skuldbindinga íslenskra stjórnvalda samkvæmt samningi um Evrópska efnahagssvæðið við meðferð umsókna um atvinnuleyfi, hvort sem um er að ræða ný atvinnuleyfi, framlengingu atvinnuleyfa eða umsókn um nýtt leyfi þegar skipt er um vinnuveitanda.