Nýtt markflokkakerfi ríkisbréfa
Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 10/2006
Fjármálaráðherra hefur falið Lánasýslu ríkisins að taka upp reglubundna útgáfu ríkisbréfa til tveggja ára og ríkisvíxla til þriggja mánaða.
Þessari útgáfu er ætlað að styðja við hagstjórn með því að tryggja að til staðar sé samfelldur óverðtryggður vaxtaferill allt að sjö árum sem gefur mikilvægar upplýsingar um væntingar í hagkerfinu sem nýtast m.a. við stjórn peningamála. Samfelldur vaxtaferil áhættulausra vaxta sem byggist á útgáfum ríkissjóðs myndar nauðsynlega undirstöðu fyrir verðmat á öðrum verðbréfum og afleiðum. Nýtt markflokkakerfi ríkisbréfa mun því styrkja innviði fjármálamarkaðarins og færa hann nær því sem tíðkast í nágrannaríkjum okkar.
Góð staða ríkissjóðs gefur ekki tilefni til að hann sæki fé á markað og mun því nýtt markflokkakerfi ríkisbréfa fyrst og fremst fela í sér breytingar á skuldasamsetningu ríkissjóð í formi uppkaupa á löngum verðtryggðum skuldum og útgáfu á óverðtryggðum ríkisbréfum. Að jafnaði verða gefnir út markflokkar ríkisbréfa á 6 mánaða fresti til tveggja ára nema þegar um 2 ár eru til gjalddaga lengri flokka. Hámarksfjárhæð hvers flokks mun nema 15 milljörðum króna og er gert ráð fyrir að þeirri fjárhæð verði náð í þremur mánaðarlegum útboðum. Á þessu ári verða gefnir út tveir nýir markflokkar ríkisbréfa, fyrst í júní og síðan í desember og verður útgáfa í þeim alls um 20 milljarðar króna á árinu. Áfram verða gefin út bréf í flokki RB 10 og er stefnt að því að stærð hans nemi um 25 milljörðum króna í lok ársins.
Ríkisvíxlar til þriggja mánaða verða gefnir út mánaðarlega, nema þegar 3 mánuðir eru til gjalddaga ríkisbréfaflokks. Hámarksfjárhæð verður 5 milljarðar króna í hverjum flokki og mun staða ríkisvíxla í árslok nema um 10 milljörðum króna.
Jafnframt verða teknar upp viðræður við fjármálastofnanir um viðskiptavakt á þessum flokkum.
Heildarútgáfa ársins, án ríkisvíxla, er áætluð 27 milljarðar króna. Á móti kemur forinnlausn ríkisbréfa úr flokki RB 07 fyrir um 5 milljarða króna og spariskírteina úr flokki RS 15 fyrir um 18 milljarða króna. Þá mun staða ríkisvíxla lækka um 4 milljarða króna á árinu. Ekki er því stefnt að útgáfu umfram uppkaup en verði það reyndin mun sú fjárhæð lögð inn á reikning ríkissjóðs í Seðlabanka Íslands samkvæmt sérstökum kjörum sem gilda þar um.
Þegar nýtt markflokkakerfi ríkisbréfa er komið að fullu til framkvæmda mun það telja tvo langa ríkisbréfaflokka, fjóra stutta ríkisbréfaflokka og tvo til þrjá flokka ríkisvíxla. Með þessu móti myndast samfelldur ferill áhættulausra vaxta sem er mikilvægur íslenskum fjármálamarkaði.