Vöruinnflutningur í apríl
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins – þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Vörur voru fluttar inn fyrir rúmlega 27 milljarða króna í apríl ef marka má bráðabirgðatölur um innheimtu virðisaukaskatts.
Þetta gefur til kynna töluvert minni innflutning en í marsmánuði en þá var flutt inn fyrir um 33 milljarða króna. Staðvirtur innflutningur hefur aukist um 6,3% síðustu tólf mánuði en 22,4% ef horft er til tólf mánaða breytingar ársfjórðungsmeðaltals.
Breytingar milli mánaða má að stórum hluta rekja til minni eldsneytiskaupa en einnig vekur athygli að ýmsir neyslutengdir liðir dragast töluvert saman.
Innflutningur á fólksbílum dregst mikið saman milli mánaða en marsmánuður var með stærri mánuðum hvað bílainnflutning varðar. Innflutningur á bílum í aprílmánuði var umtalsvert minni en staðvirtur meðalmánaðarinnflutningur síðasta árs.
Innflutningsverðmæti annarra neysluvara á borð við varanlegar neysluvörur (t.d. ísskápa, sjónvörp) og hálf-varanlegar neysluvörur (t.d. fatnað) minnkar einnig töluvert milli mánaða. Á hinn bóginn mælist aukning í inn-flutningi á fjárfestingar- og rekstrarvörum sem má rekja til stóriðjuframkvæmda.