Hoppa yfir valmynd
10. maí 2006 Matvælaráðuneytið

Vefur um umhverfismerkingar sjávarafurða

Í mars 2005 voru samþykktar á fundi fiskimáladeildar FAO leiðbeinandi reglur um umhverfismerkingar sjávarafurða sem unnar eru úr villtum fiski. Þar með var mikilvægum áfanga náð eftir nær áratugar starf að umhverfismerkingum sjávarafurða innan FAO.

Umræðan um umhverfismerki kviknaði m.a. í kjölfar alþjóðlegrar umræðu um ósjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins, einkum á miðum margra Evrópusambandsríkja sem jafnframt eru helstu kaupendur sjávarafurða úr Norður Atlantshafi. Hugmyndin var að neytendur ættu að eiga þess kost að velja sér sjávarafurðir á grundvelli þess hvort nýtingu lifandi auðlinda væri stjórnað af ábyrgð. Jafnframt var talið að neytendur gætu verið tilbúnir til að greiða hærra verð fyrir slíka vöru. Þar sem stjórnvöldum væri ekki að treysta, ættu aðilar sem væru óháðir þeim að taka út stöðu og horfur fyrir einstaka stofna og votta sjálfbæra nýtingu þeirra.

Sjávarútvegsráðuneytið brást strax við og tók upp virkt samráð við hagsmunaaðila og önnur norræn ríki um að greina stefnu málsins og hvernig mætti bregðast við þeirri spurn eftir upplýsingum um sjálfbæra nýtingu sem þarna kæmi fram. Í framhaldi af því var á Íslandi sett upp upplýsingaveitan fisheries.is árið 1999. Hún var liður í að veita ítarlegar upplýsingar um stjórn og framfylgd ákvarðana um nýtingu lifandi auðlinda hafsins, vinnslu sjávarfangs og umhverfismál sjávarútvegs á Íslandi. Nú er í undirbúningi enn öflugri gagnaveita ráðuneytisins og stofnana þess, sem vonast er til að geti svarað flestum þeim spurningum sem leita á innkaupastjóra sjávarafurða í viðskiptalöndum okkar. Flestum sem versla með íslenskar afurðir hefur til þessa nægt að fá slíkar upplýsingar á aðgengilegu formi til að geta svarað fyrirspurnum neytenda og hagsmunahópa um þessi efni sem til þeirra er beint.

Samhliða upplýsingaveitunni var unnið að málinu á alþjóðlegum vettvangi. Voru fulltrúar Íslands leiðandi í undirbúningi og samningaviðræðum aðildarlanda FAO frá því að byrjað var að ræða um að þörf væri á alþjóðlega samþykktum leiðbeinandi reglum. Reglurnar setja umhverfismerkingum sjávarafurða ramma þar sem meðal annars er kveðið á um efnisleg viðmið og lágmarkskröfur, stofnanalegt skipulag og framkvæmd slíkra merkinga, þar með talið óháða faggildingu og vottun þriðja aðila.

Umhverfismerki sjávarafurða eru nú þegar í boði og má búast við að þeim fjölgi á næstu árum. Þeir sem hafa boðið þau gátu ákveðið hvað fælist í merkjunum og haft sjálfdæmi um skipulag og framkvæmd. Með samþykktinni í fyrra komu ríki heims sér hins vegar saman um efnislegar reglur um inntak og form slíkra merkja. Þeir sem íhuga að kaupa merki á vörur sínar geta þar með séð hvernig það sem þeim er boðið passar við það sem þar er talið grundvallaratriði merkinga og ætlað er að tryggja að umhverfismerki sjávarafurða séu trúverðug.

Íslendingar selja rúm 70% sjávarafurða sinna til Evrópusambandsríkja og af því fara um 40%  til Bretlands og Þýskalands þar sem umhverfismerkingar eru mest í umræðunni.   Gott samstarf hefur tekist með sjávarútvegsráðuneytinu og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins í Brussel. Báðum er í mun að  þau umhverfismerki fyrir sjávarafurðir sem notuð verða á markaðinum hafi raunverulega merkingu og geti ekki orðið einokunarmerki.  

Á því rúma ári sem liðið er frá því að reglur FAO voru samþykktar hefur komið í ljós að þörf er á að þær og annað efni um umhverfismerkingar séu þægilega aðgengilegar seljendum og kaupendum sjávarafurða svo og neytendum. Vefurinn sem hér er tengt í er settur upp í því skyni í faglegri samvinnu framkvæmdastjórnarinnar í Brussel og íslenskra stjórnvalda. Hann er kostaður og vistaður af framkvæmdastjórn ESB.  Eftir því sem málin þróast er ætlunin að setja á þennan vef viðbótarefni svo sem um viðmið eða rekjanleikakerfi. Vefurinn er einungis á ensku.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum