Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra situr fund Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun í New York 10. - 12 maí.
Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra lagði áherslu á mikilvægi þess að leysa orkuþörf þróunarríkjanna á sama tíma og reynt yrði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í ræðu sem hún flutti í gær á 14. fundi nefndar Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Fundurinn er að þessu sinni helgaður orkumálum og loftslagsbreytingum.
Umhverfisráðherra sagði í ræðu sinni að aukin nýting endurnýjanlegra orkugjafa félli að báðum fyrrgreindum markmiðum. Því miður væri enn alltof mikil áhersla á að leysa orkuþörf hinna fátækari þjóða heims með hefðbundnum orkugjöfum, þ.e. kolum og olíu. Ráðherra benti sérstaklega á möguleika jarðhitanýtingar í flestum heimshlutum en talið er að jarðhiti geti leyst úr orkuþörf allt að 600 milljóna manna. Þess má geta að talið er að yfir 2 milljarðar manna í heiminum hafi ekki aðgang að rafmagni. Einnig benti ráðherra á möguleika vetnis í sjálfbærri orkunýtingu í framtíðinni.
Þá átti ráðherra fund með Dick Roche umhverfisráðherra Írlands um kjarnorkuendurvinnslustöðina í Sellafield en bæði Ísland og Írland hafa ítrekað þrýst á bresk stjórnvöld að minnka losun geislavirkra efna frá stöðinni eða loka henni. Írska ríkisstjórnin bíður nú niðurstöðu Alþjóða hafréttardómstólsins í Hamborg í máli sem Írar lögðu fyrir dómstólinn vegna mengunar frá Sellafield á hafsvæðinu umhverfis Írland. Niðurstöðu dómstólsins er að vænta á næstu vikum og er þess vænst að hún muni skýra réttarstöðu ríkja sem ógnað er vegna sjávarmengunar sem berst frá öðru ríki. Hafni dómstóllinn lögsögu í málinu, sem talið er mögulegt, munu írsk stjórnvöld leggja málið fyrir Evrópudómstólinn.
Í tengslum við fund Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun efndu íslensk stjórnvöld til opinna kynningarfunda, annars vegar um nýtingu jarðhita og hins vegar þá tækni sem nýting vetnis byggir á. Fundirnir voru vel sóttir og vöktu verðskuldaða athygli.
Orku- og loftslagsmál verða áfram í brennidepli hjá nefnd Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun en hlutverk nefndarinnar á þessu sviði er að fjalla um á hvern hátt megi ná þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Á fundinum nú er staðan metin en á næsta ári er fyrirhugað að afgreiða stefnumótun um hvernig markmiðunum verði náð. Íslensk stjórnvöld leggja í þessu efni sitt af mörkum til að kynna möguleika jarðhita sem fýsilegan kost víða í heiminum, ekki síst í þróunarríkjum. Nýjar áherslur í þróunaraðstoð Íslands og rekstur Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi munu styðja við það markmið.
Fréttatilkynning nr. 10/2006
Umhverfisráðuneytið